Innlent

Bandaríkin og Ísland undirrita yfirlýsingu um aukið varnarsamstarf

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Yfirlýsingin er viðbót við samkomulag sem undirritað var við bandarísk stjórnvöld haustið 2006.
Yfirlýsingin er viðbót við samkomulag sem undirritað var við bandarísk stjórnvöld haustið 2006. vísir/stefán
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, undirrituðu í dag sameiginlega yfirlýsingu um samstarf á sviði varnarmála. Yfirlýsingin er viðbót við samkomulag sem undirritað var við bandarísk stjórnvöld haustið 2006 og rúmast innan tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951.

„Umhverfi öryggismála í Evrópu og norðanverðu Atlantshafi hefur breyst á undanliðnum tíu árum og íslensk og bandarísk stjórnvöld eru sammála um að tilefni sé til að endurspegla það í yfirlýsingu sem þessari", segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í tilkynningu.

Yfirlýsingin kveður meðal annars á um áframhaldandi stuðning Bandaríkjanna við loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins hér á landi og tímabundna viðveru kafbátaleitarvéla, náið samráð um öryggis- og varnarmál, viðhald og rekstur varnarmannvirkja, upplýsingaskipti og hagnýtt samstarf, meðal annars á sviði æfinga, leitar og björgunar og neyðaraðstoðar, að því er segir í tilkynningunni.

Bandaríkjaher hefur frá árinu 2008 annast loftrýmisgæslu á Íslandi á vegum Atlantshafsbandalagsins einu sinni á ári og undanfarin tvö ár hafa bandarískar kafbátaleitarvélar haft tímabundna viðveru hér á landi.

„Það er einkum hin tímabundna viðvera Bandaríkjahers hér á landi, sem hefur verið að þróast undanfarin ár og er stigsbreyting á okkar samstarfi, sem við viljum formfesta með þessum hætti, enda er gegnsæi afar mikilvægt í samskiptum ríkjanna. Um leið gefst hér gott tækifæri til að árétta gagnkvæmar varnarskuldbindingar og áframhaldandi samráð og samvinnu í farsælu varnarsamstarfi sem hefur farið vaxandi á síðustu árum", segir Lilja.

Yfirlýsinguna má sjá í heild hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×