Golf

Bandaríkin í forystu eftir fjórboltann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Bandaríkin er með einn vinning í forskot eftir keppni í fjórbolta í Ryder-keppninni í golfi.

Evrópa byrjaði betur þegar að Justin Rose og Henrik Stenson unnu öruggan sigur á Bubba Watson og Webb Simpson, 5&4.

Thomas Björn og Martin Kaymer voru í fínni stöðu í sinni viðureign en Jimmy Walker tryggði Bandaríkjamönnum hálft stig með því að setja niður langt pútt á átjándu holu.

Björn og Kaymer voru mest þremur vinningum yfir í viðureigninni og því endurkoma Bandaríkjanna öflug.

Evrópumennirnir Rory McIlroy og Sergio Garcia voru sömuleiðis yfir á lokasprettinum gegn þeim Phil Mickelson og Keegan Bradley í stórviðureign morgunsins. En Bradley náði að jafna metin með erni á sextándu og þeir bandarísku tryggðu sér sigurinn með því að vinna átjándu holu.

Jordan Spieth og Patric Reed, sem báðir eru nýliðar í bandaríska liðinu, unnu svo öruggan sigur á Stephen Gallacher og Ian Poulter í sinni viðureign, 5&4.

Keppni í fjórmenningi er svo nýhafin en Paul McGinley, fyrirliði evrópska liðsins, hélt þeim McIlroy og Garcia áfram saman annars vegar og hins vegar Rose og Stenson.

Walker og Fowler keppa áfram saman í bandaríska liðinu og mæta þeim McIlroy og Garcia. Þá hélt Tom Watson, fyrirliði Bandaríkjanna, þeim Mickelson og Bradley saman.

Keppni í fjórmenningi:

Jamie Donaldson/Lee Westwood gegn Matt Kuchar/Jim Furyk

Justin Rose/Henrik Stenson gegn Hunter Mahan/Zach Johnson

Rory McIlroy/Sergio Garcia gegn Jimmy Walker/Rickie Fowler

Victor Dubuisson/Graeme McDowell gegn Phil Mickelson/Keegan Bradley

Útsending frá Ryder-bikarnum er hafin á Golfstöðinni, en allir þrír keppnisdagarnir verða í beinni útsendingu. Fáðu þér áskrift hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×