Innlent

Baltasar Kormákur: „Maður verður að læða þeim inn sem manni þykir vænst um“

Ólöf Skaftadóttir og Viktoría Hermannsdóttir skrifa
Baltasar Kormákur var gestur Ólafar Skaftadóttur og Viktoríu Hermannsdóttur í Föstudagsviðtalinu. Viðtalið er hægt að hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Þar ræddi hann kynjakvóta sem hann vill setja á úthlutanir úr kvikmyndasjóði, lífið í Skagafirði, ástina sem hann fann í Lilju og hvernig það var að stíga aftur á svið í Þjóðleikhúsinu eftir margra ára hlé.

Saknarðu þess aldrei að leika?

Jú og nei. Mér finnst ógeðslega gaman að leika. Ég fór á svið aftur eftir langan tíma, í Listaverkinu sem var sýning sem við sýndum einhverjum fimmtán árum áður. Það hljómaði vel og þetta var hálfgert nostalgíukast, við Ingvar E. og Hilmir Snær komnir aftur á svið í Þjóðleikhúsinu. En ég hugsa að það að leika í bíómynd sé sennilega auðveldara fyrir mig. Ég hef áhuga á því og mig langar að gera það, og það getur verið að ég geri það eitthvað. Ég held ég hafi orðið miklu betri leikari á því að leikstýra."

Svo seturðu fjölskylduna, Lilju og börnin, stundum í lítil hlutverk í myndunum þínum?

Já, maður verður að læða þeim inn sem manni þykir vænst um. Ég hef lýst því þannig ég er leikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur í hjartanu, fyrst og fremst leikstjóri. Framleiðandi kannski því ég er góður í viðskiptum. Það hefur alltaf legið fyrir mér og ég hef þörf á því að sjá um mín mál og láta ekki aðra passa uppá mig. Ég hef kannski orðið framleiðandi að neyð og svo hefur það gengið vel og þá vill maður halda áfram."

Hann segist aðallega laga handrit sem höfundur. Ég er mjög góður í að gera aðlögun úr bók í bíómynd, og laga handrit. Meira svona eins og dramatúrg sem kemur sennilega úr leikhúsinu. Leikarinn er meira svona Balti í sumarfríi. Ógeðslega gaman, gaman að gera það, en ég vakna ekki á morgnana og hugsa: Vá, hvað mig langar að leika Hamlet. Ég fann það þegar ég varð leikstjóri. Þá vaknaði ég á morgnana og hugsaði hvernig get ég gert betri bíómynd. Leikarinn fór þá dálítið í aftursætið."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×