Enski boltinn

Bálreiður stuðningsmaður Arsenal tók kastið á Wenger: „Kominn fram yfir síðasta söludag“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stuðningsmenn nokkra liða í ensku úrvalsdeildinni fá sumir hverjir stóran vettvang til að tjá sig um leiki liðsins skömmu eftir að þeim lýkur á Youtube-síðum sem verða vinsælli með hverri vikunni sem líður.

ArsenalFanTV er Youtube-rás sem eðli málsins samkvæmt fylgir Arsenal-liðinu út um allt og tekur stuðningsmenn tali eftir leik. Einn þeirra missti vitið eftir að Skytturnar þurfu að sætta sig við tap gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea í gærkvöldi.

Stuðningsmaðurinn er búinn að fá nóg af Arsene Wenger, knattspyrnustjóra liðsins, en Arsenal er sex stigum á eftir Leicester í toppbaráttuni þegar tíu umferðir eru eftir.

„Ég mæti á hvern einasta leik bæði heima og úti og nú er ég búinn að fá nóg. Ég er búinn að fá nóg af stjóranum sem er kominn fram yfir síðasta söludag,“ segir stuðningsmaðurinn.

vísir/getty
Fjórir þökkuðu fyrir sig

Hann segir að Wenger nái ekki að hvetja menn til dáða og bendir til dæmis á Calum Chambers sem spilaði frábærlega í seinni hálfleik á móti Leicester á dögunum.

„Það héldu allir að við myndum tapa leiknum því Chambers var að koma inn á, en svo átti hann besta hálfleik nokkurs varnarmanns í liðinu á tímabilinu. Og hvað fékk hann að launum? Hann var ekki einu sinni í hópnum á móti Manchester United,“ segir hann.

„Ég mætti til Manchester og þar þökkuðu fjórir leikmenn okkur fyrir stuðninginn eftir leik en hinir drulluðu sér út af. Það er engin stemning í liðinu og það er stjóranum að kenna. Það tók okkur klukkutíma og 20 mínútur bara að komast út úr Manchester og fyrir þetta þökkuðu fjórir leikmenn fyrir sig.“

Stuðningsmaðurinn er brjálaður vegna kaupstefnu Arsene Wengers, en eftir að kaupa tvo dýra leikmenn tvö ár í röð hefur Wenger haldið um veskið á þessu tímabili. Á meðan hann kaupir engar stórstjörnur eru stuðningsmenn Arsenal að borga hæsta verð allra fyrir að sjá liðið sitt spila.

vísir/getty
Hættum að sætta okkur við þetta

„Arsene Wenger segist ekki tilbúinn að borga of hátt verð fyrir leikmenn. Ég borga of mikið fyrir að sjá hvern einasta helvítis leik. Af hverju borgar liðið ekki meira þegar ég þarf að gera það? Er það réttlátt?“ segir hann.

„Ég mun mæta á leikinn gegn Tottenham eins og fíflið sem ég er á laugardaginn og þar veit ég ekkert hvað ég fæ frá liðinu. Eflaust vinnum við og allir fyrirgefa Wenger.“

„Við erum bara að biðja um að peningum verði eytt í leikmenn. Við seldum sál okkar þegar við fórum frá Highbury og byrjuðum að spila á þessum velli. Nú er Wenger búinn að eyða fimmtán milljónum í síðustu tveimur félagaskiptagluggum og allir hér sætta sig við þetta.“

„Við getum ekki sætt við okkur þetta lengur. Wenger þarf að átta sig á því að hann er kominn yfir síðasta söludag, hætta og gefa einhverjum öðrum tækifæri á að koma liðinu á toppinn þar sem þetta fjandans lið á að vera,“ segir stuðningsmaðurinn.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×