Fótbolti

Balotelli þarf að læra af Suarez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, segist þess fullviss að Mario Balotelli geti náð sínu besta fram hjá félaginu. En til þess þarf hann að læra af forverum sínum hjá félaginu.

Balotelli er einn þeirra leikmanna sem þarf að fylla í skarð Luis Suarez, sem var seldur til Barcelona í sumar. Rodgers ákvað að veðja á Balotelli sem kom til liðsins frá AC Milan í sumar.

Hann segir að Balotelli hafi sýnt vilja til að bæta sig og kynna sér sögu félagsins. „Mario skilur að margir frábærir framherjar hafa spilað með Liverpool í gegnum tíðina. Við höfum rætt um Suarez og þann tíma sem hann var hér.“

„Hann er enn ungur og enn að læra. Hann er hungraður í að ná árangri og standa sig vel. Strax frá fyrsta degi sýndi hann vilja og áhuga til að læra nýja hluti.“

Balotelli skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool þegar liðið vann Ludogorets í Meistaradeild Evrópu í vikunni, 2-1.

„Maður sá að hann lagði allt í leikinn. Hann þarf að gera meira af því og það kemur með leikforminu. Þá mun hann koma sér í færi og skora fleiri mörk,“ sagði Brendan Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×