Fótbolti

Balotelli sá rautt í þriðja sinn á tímabilinu | Móðgaði dómarann á ensku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mario Balotelli, framherji franska liðsins Nice, var rekinn af velli í þriðja sinn á tímabilinu í gær.

Þegar 68 mínútur voru liðnar af leik Lorient og Nice í frönsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi sýndi dómarinn Tony Chapron Balotelli rauða spjaldið.

Að sögn Chaprons notaði Ítalinn óstýrláti þekkt enskt orð til að móðga hann.

„Hann móðgaði mig á ensku. Ég segi ekki meira en þetta var þekkt orð,“ sagði dómarinn í samtali við L'Equipe eftir leik.

Brottrekstur Balotellis kom ekki að sök því Nice vann leikinn 0-1. Með sigrinum fór liðið upp í 2. sæti deildarinnar.

Balotelli var einnig rekinn af velli í fyrri leiknum gegn Lorient 2. október á síðasta ári. Líkt og í gær kom rauða spjaldið ekki að sök því Nice vann leikinn 2-1.

Balotelli fékk einnig að líta rauða spjaldið í markalausu jafntefli við Bordeaux í deildinni 21. desember á síðasta ári.

Balotelli kom til Nice frá Liverpool fyrir tímabilið. Hann hefur skorað 11 mörk í öllum keppnum í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×