Enski boltinn

Balotelli neyðist til að snúa aftur til Liverpool þar sem hann vill ekki vera

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mario Balotelli er búinn að skora tvö deildarmörk á síðustu tveimur tímabilum.
Mario Balotelli er búinn að skora tvö deildarmörk á síðustu tveimur tímabilum. vísir/getty
Ítalski framherjinn Mario Balotelli neyðist líklega til að snúa aftur til Liverpool þar sem hann vill ekki vera en ítalska liðið AC Milan hefur engan áhuga á að nýta sér forkaupsréttinn á honum. Hann var þar á láni á síðustu leiktíð.

Balotelli er einn nokkurra leikmanna ásamt Alex, Kevin-Prince Boateng og Philippe Mexes sem er á útleið hjá Milan en þar á bæ ætla menn að stokka upp í leikmannamálum. Þetta kemur fram á vef Sky Sports.

Balotelli fluttist aftur til Ítalíu og gerði eins árs lánssamning við AC Milan eftir að valda miklum vonbrigðum með Liverpool leiktíðina 2014/2015 þar sem hann skoraði aðeins eitt deildarmark.

Ítalski framherjinn var álíka lélegur hjá AC Milan en þar skoraði hann einnig aðeins eitt deildarmark í 20 leikjum. Hann byrjaði síðustu tvo deildarleiki liðsins sem fékk suma til að halda að hann yrði áfram hjá Mílanó-liðinu en svo er ekki.

„Það verða margir leikmenn sem yfirgefa okkur. Alex, Mexes, Boateng og Balotelli eru allir að renna út á samning,“ er haft eftir Silvio Berlusconi, forseta AC Milan.

Frammistaða Balotelli varð til þess að hann var ekki valinn í EM-hóp Ítalíu. Hann hefur engan áhuga á að snúa aftur til Liverpool en breytist ekkert í hans málum þarf hann að mæta þar til æfinga þegar undirbúningstímabilið hefst á ný í júlí.

„Hvað varðar framtíð mína vil ég vera áfram hjá Milan því ég var ekki ánægður hjá Liverpool og mig langar ekki að fara aftur þangað,“ sagði Mario Balotelli við Mediaset Premium í apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×