Fótbolti

Balotelli neitaði að tjá sig um Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Vísir/Getty
Mario Balotelli neitaði að svara spurningum um Liverpool þegar hann var í löngu viðtali við RMC-útvarpsstöðina í Frakklandi.

Balotelli steig fram í sviðsljósið þegar hann sló í gegn með Inter fyrir tæpum áratug síðan. Eftir það gekk hann í raðir Manchester City þar sem hann vakti ekki síður athygli fyrir uppátæki sín utan vallar en innan.

Eftir að hann fór frá City hefur ferill hans tekið dýfu niður á við. Hann freistaði þess að láta aftur til sín taka í ensku úrvalsdeildinni þegar hann gekk til liðs við Liverpool árið 2014.

Það gekk ekki eftir og Balotelli var settur í kælinn þegar Jürgen Klopp tók við félaginu. Hann fór loks frá liðinu til Nice í Frakklandi á síðasta ári.

„Vinsamlegast ekki ræða við mig um Liverpool,“ sagði hann í viðtalinu en Balotelli byrjaði af miklum krafti í Nice og hefur skorað tíu mörk á tímabilinu.

„Mér líður virkilega vel hér. Stuðningsmenn okkar eru frábærir. Þetta er ungt lið, yngra en ég. Mér hefur verið virkilega vel teki hér,“ sagði Balotelli sem fullyrti einnig að Barcelona hefði haft áhuga á honum þegar hann var táningur.

„Ég fór næstum því til Barcelona en liðið sem ég var þá vildi fá pening fyrir mig. Þannig að ég fór til Inter í staðinn. Barcelona vildi ekki borga fyrir mig,“ sagði hann.


Tengdar fréttir

Liðsfélagi Balotelli: Hann vill ekkert með okkur hafa

Það mátti svo sem búast við því að öskubuskuævintýri Mario Balotelli entist ekki lengi í Nice. Eftir frábæra byrjun virðist ítalski framherjinn vera búinn að koma sér í ónáð hjá liðsfélögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×