Enski boltinn

Balotelli hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Liverpool

Anton Ingi Leifsson skrifar
Balotelli í leik með Liverpool.
Balotelli í leik með Liverpool.
Mario Balotelli, sem er nú á láni hjá AC Milan frá Liverpool, hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Liverpool ef marka má frétt blaðamannsins James Pearce hjá Liverpool Echo.

Þessi athyglisverði ítalski framherji er nú á eins árs lánssamningi hjá AC Milan frá Liverpool, en Liverpool keypti hann einmitt frá Milan í ágústmánuði 2014 á 16 milljónir punda.

Liverpool vonast nú til að fá sem mesta hluta peningsins til baka, en áhugi er frá Kína þar sem peningarnir malla þessa stundina. Einnig er einhver áhugi frá Tyrklandi og vonast Bítlaborgarliðið til þess að selja kappann.

Balotelli, sem fór í aðgerð í nóvember, hefur einungis skorað tvö mörk í ellefu leikjum fyrir Milan, en Sinisa Mihajlovic, þjálfari Milan, gagnrýndi Balotelli eftir nauman sigur á Genoa um helgina.

Enska liðið er enn að borga Balotelli 80 þúsund sterlingspund á viku, en þeir eru að vonast eftir því að koma honum frá félaginu sem fyrst. Hann skoraði einungis fjögur mörk í 28 leikjum fyrir þá rauðu.

Nóg er um að velja í framherjastöður Liverpool svo ekki er þörf fyrir Balotelli. Daniel Sturridge, Christian Benteke, Divock Origi og Robert Firmino geta allir spilð sem fremsti maður auk þess sem Danny Ings verður klár fyrir næsta tímabil, en hann meiddist illa fyrr á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×