Enski boltinn

Balotelli fær tvo mánuði til að sanna sig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/GEtty
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, gaf sterklega í skyn í gær að sóknarmaðurinn Mario Balotelli væri að berjast fyrir framtíð sinni hjá félaginu.

Liverpool keypti Balotelli fyrir sextán milljónir punda í sumar en kappinn hefur valdið vonbrigðum. Aðeins eitt mark í tíu leikjum og í vikunni var hann harðlega gagnrýndur fyrir að skiptast á treyjum við Pepe, varnarmann Real Madrid, í hálfleik í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu.

Nýjustu tíðindin af honum er að hann sætir nú lögreglurannsókn eftir að hann mun hafa ógnað konu sem var að taka myndir af rauðri Ferrari-glæsibifreiðinni hans.

„Við fengum leikmanninn til að gefa honum tækifæri og við munum gera það áfram,“ sagði Rodgers í samtali við fjölmiðla. „Hann er að reyna sitt besta til að passa inn í liðið og leikmannahópinn en aðeins tíminn mun leiða í ljós hvað verður. Við munum sjá hverjar þarfir liðsins verða í janúar,“ bætti hann við en opnað verður fyrir félagaskipti um áramótin.

Meðal þeirra sem gagnrýndu Balotelli harkalega fyrir treyjuskiptin við Pepe voru Jamie Redknapp og Graeme Souness. Sá síðarnefndi tók hann rækilega í gegn en hann starfaði þá sem sérfræðingur í myndveri Sky Sports-sjónvarpsstöðvarinnar.

„Það sýndi mikið hugrekki að taka hann í liðið því góðir knattspyrnustjórar hafa gefist upp á honum,“ sagði Souness en á þeim lista eru Roberto Mancini, Cesare Prandelli og Jose Mourinho. Sá síðastnefndi sagði að Balotelli væri mögulega bara með eina heilasellu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×