Enski boltinn

Balotelli ekki í leikmannahóp Liverpool sem fer til Finnlands

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Balotelli og Benteke á æfingu Liverpool á dögunum.
Balotelli og Benteke á æfingu Liverpool á dögunum. Vísir/Getty
Mario Balotelli virðist ekki eiga neina framtíð hjá Liverpool en hann ferðaðist ekki með liðinu til Finnlands fyrir æfingarleik liðsins gegn HJK Helsinki samkvæmt miðlum erlendis. Æfir hann því áfram á Melwood, æfingarsvæði Liverpool, ásamt nýjustu liðsmönnum liðsins, Robert Firminho og Christian Benteke.

Balotelli sem gekk til liðs við Liverpool rétt fyrir lokun félagsskiptagluggans síðasta sumar náði aldrei neinum takt hjá Liverpool og skoraði aðeins fjögur mörk í öllum keppnum í 28 leikjum. Var hann gagnrýndur af liðsmönnum sem og knattspyrnustjóra Liverpool, Brendan Rodgers, fyrir frammistöðu sína á tímabilinu. Hefur hann fyrir vikið verið orðaður við ítölsk félög í allt sumar en Liverpool hefur þegar gengið frá kaupunum á Christian Benteke og Danny Ings.

Balotelli ferðaðist ekki með liðinu til Asíu og Ástralíu en honum var skipað að æfa á Melwood æfingarsvæðinu á meðan ferðinni stóð. Þrátt fyrir það virtist Rodgers vera tilbúinn að gefa honum tækifæri en hann sagði á blaðamannafundi að framtíð Balotelli hjá Liverpool væri undir honum komin.

Balotelli hefur verið orðaður við Fiorentina, Sampdoria og Bologna á Ítalíu en ekkert þessara félaga virðist hafa fjármagnið til þess að greiða uppsett verð en talið er að Liverpool vilji fá 10 milljónir punda ári eftir að þeir greiddu 16 milljónir punda fyrir ítalska vandræðagemsann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×