Lífið

Baldur hlýtur eldskírnina

Baldvin Þormóðsson skrifar
Félagarnir eru þekktir fyrir líflega sviðsframkomu.
Félagarnir eru þekktir fyrir líflega sviðsframkomu. mynd/Allan Sigurðsson
„Við vildum ekki vera að flækja þetta með einhverri hljómsveitahrúgu,“ segir Haukur Viðar Alfreðsson, meðlimur Morðingjanna, en sveitin heldur tónleika á Gauknum í kvöld ásamt hljómsveitinni Elínu Helenu.

„Nú á okkar tíunda starfsári ákváðum við að bæta einum manni í hljómsveitina og eru þetta fyrstu tónleikar okkar sem kvartett,“ segir Haukur en sá sem hlýtur eldskírn sína sem Morðingi í kvöld er tónlistarmaðurinn Baldur Ragnarsson.

„Hann hefur að vísu hlaupið undir bagga með okkur af og til en við erum bara í skýjunum yfir að hann sé orðinn fullgildur hljómsveitarmeðlimur.“

Morðingjarnir ættu að vera flestum Íslendingum kunnir en sveitin hefur verið starfandi frá árinu 2005 og sent frá sér þrjár plötur sem hafa hlotið góðar viðtökur landsmanna.

„Við ætlum að dusta rykið af ýmsu gömlu efni og einnig flytja lög sem við höfum aldrei spilað áður,“ segir Haukur. „Vonandi verða þetta bara fyrstu tónleikar af mörgum þar sem við verðum fjórir í miklu stuði.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 22.30 á Gauknum og er miðaverð 1.000 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×