Lífið

Baldur bætist í hóp Morðingja

Baldvin Þormóðsson skrifar
Baldur er vel skipulagður.
Baldur er vel skipulagður. mynd/einkasafn
„Þetta er bara yndislegt, Morðingjarnir eru lengi búnir að vera ein af mínum uppáhaldshljómsveitum,“ segir tónlistarmaðurinn Baldur Ragnarsson, en hann er nýjasti meðlimur Morðingjanna. Sjálfur er Baldur ekki óvanur hljómsveitarstarfi en hann hefur ekki tölu á þeim hljómsveitum sem hann spilar með.

„Þetta er algjört óhóf, það er alveg á tæru,“ segir hann hlæjandi en meðal hljómsveita sem Baldur spilar með eru til dæmis Skálmöld, Ljótu hálfvitarnir, Innvortis, Dætrasynir, Bófar og núna Morðingjarnir.

Baldur hefur áður komið fram með Morðingjunum en hann bjó í tvö ár með söngvaranum Hauki Viðari Alfreðssyni.

„Þegar ég var beðinn um að verða fullgildur meðlimur þá gat ég ekki annað en sagt já,“ segir tónlistarmaðurinn, sem segist hafa komið sér þannig fyrir að það eina sem hann gerir er að spila tónlist.

„Með góðu skipulagi er hægt að koma þessu öllu saman fyrir og meira til ef út í það er farið. Þetta hjálpar manni að vera á tánum og að halda sköpunargleðinni lifandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×