Innlent

Baldri Guðlaugs leið "extra vel" þegar hann seldi bréfin

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Baldur Guðlaugsson ásamt verjanda sínum, Karli Axelssyni.
Í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Baldur Guðlaugsson ásamt verjanda sínum, Karli Axelssyni.
Baldur Guðlaugsson fyrrverandi ráðuneytisstjóri sagði fyrir dómi í morgun að sér hefði liðið extra vel þegar hann seldi bréf sín í Landsbankanum hinn 17. september 2008 og sagðist viss um að hafa ekki búið yfir innherjaupplýsingum.

 

Aðalmeðferð í máli Baldurs hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, en Baldur er ákærður fyrir innherjasvik vegna sölu á hlutabréfum sínum í Landsbankanum fyrir 192 milljónir króna hinn 17. september 2008, en aðeins degi áður sat hann fund í samráðshópi í um fjármálastöðugleika þar sem rætt var m.a hvernig ætti að bregðast við ef bankarnir færu á hliðina. Fram kom fyrir dómi í morgun að niðurstaðan af þeim fundi hafi verið í grófum dráttum sú að verja innistæður en að hluthafa töpuðu hlutlafjáreign sinni. 

 

Bretar vildu stöðva Icesave-auglýsingarnar

Í ákærunni í málinu er í sex liðum vísað til upplýsinga sem Baldur bjó yfir sem nefndarmaður í samráðshópnum sem ákæruvaldið telur að megi flokkast sem innherjaupplýsingar. M.a kröfur breska fjármálaeftirlitsins um að setti væri hámark á innistæður á Icesave-reikningunum (5 milljarðar punda) og að stöðvuð yrði markaðsherferð bankans í Bretlandi, en hún var mjög ágeng með tilheyrandi vinsældum reikninganna.

Björn Þorvaldsson saksóknari, sem sækir málið fyrir embætti sérstaks saksóknara, gekk á Baldur og spurði hann hvernig staðið hafi á því að hann hafi talið að þessar upplýsingar sem hann bjó yfir sem nefndarmaður í samráðshópi um fjármálastöðugleika hafi ekki talist verðmyndandi upplýsingar sem hefðu haft áhrif á Landsbankann og hugsanlega valdið áhlaupi á bankann hefðu þær verið opinberar. Baldur sagðist ekki hafa talið að svo væri. Baldur sagði að hann hefði getað með góðri samvisku selt bréfin á þeim tímapunkti sem salan átti sér stað.

 

Vitnað var í þau orð Baldurs á fyrri stigum rannsóknarinnar að hann hefði ekki átt nein samskipti við stjórnendur Landsbankans. Saksóknarinn vísaði fyrir dómi í morgun í fund sem Baldur átti með Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni bankastjórum Landsbankans hinn 13. ágúst 2008 og spurði hvernig á þessu misræmi stæði. Baldur sagði að hann hefði verið að vísa til þess að hann hefði ekki átt nein samskipti við stjórnendur bankans um hlutabréf bankans, hann hafi því ekki talið þennan fund með. 

 

„Áfram órói, en mér leið alveg extra vel“

Saksóknaranum lék forvitni á að vita hvernig Baldur gat skilið á milli upplýsinga sem hann bjó yfir sem upplýstur borgari og þeirra upplýsinga sem hann fékk í samráðshópnum. Baldur sagðist aldrei hafa búið yfir innherjaupplýsingum því viðræður við breska fjármálaeftirlitið um flutning Icesave-reikninganna og aðrar upplýsingar sem samráðshópurinn bjó yfir hafi verið það fljótandi að hann hafi ekki getað litið á þær sem innherjaupplýsingar. Hann sagði að sér hefði liðið „extra vel" þegar hann seldi bréf sín í Landsbankanum hinn 17. september 2008.

 

„Það var áfram órói, en mér leið alveg extra vel að vita að málin virtust vera í eins miklu jafnvægi og þau gátu verið daginn sem ég seldi bréfin,“ sagði Baldur. Hann sagði skýringuna á þessu m.a vera frétt sem birtist í dagblaði sama dag og hann seldi bréfin um að fyrstu viðbrögð við falli Lehman brothers bankans hinn 15. september, aðeins tveimur dögum fyrr, hefði verið aukning á innlánum á Icesave-reikningunum. Þetta taldi hann sýna traust á Landsbankanum. „Það lá líka fyrir skýrsla breskrar þingnefndar um stöðu tryggingarsjóða og innistæðutrygginga og hún vakti enga sérstaka athygli á stöðu íslensku bankanna,“ sagði Baldur.

 

Á föstudag heldur aðalmeðferð áfram en þá verða teknar skýrslur yfir bankastjórum Landsbankans og Ingimundi Friðrikssyni, fyrrverandi seðlabankastjóra, en hann sat í áðurnefndum samráðshóp. Ákveðin seinkun varð á aðalmeðferð þar sem dómari heimilaði ekki skýrslutökur í gegnum síma yfir þeim, en þeir eru báðir búsettir erlendis. Búist er við að málið verði dómtekið í næstu viku og ætti niðurstaða að liggja fyrir þremur vikum síðar. Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2. thorbjorn@stod2.is


Tengdar fréttir

Það verður réttað yfir Baldri - frávísunarkröfu vísað frá

Frávísunarkröfu Baldurs Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, í máli sérstaks saksóknara gegn honum var vísað frá dómi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, samkvæmt frétt sem DV birtir á heimasíðu sinni.

Seldi daginn eftir að ríkið ákvað að bjarga ekki hluthöfum í hruninu

Fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, Baldur Guðlaugsson, sem nú hefur verið ákærður fyrir innherjasvik, fundaði með samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað, degi áður en hann seldi öll hlutabréf sín í Landsbankanum, fyrir um 192 milljónir króna, samkvæmt ákæruskjali.

Baldur: Ég lýsi mig saklausan

Baldur Guðlaugsson fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins lýsti sig saklausan við þingfestingu ákæru á hendur honum í morgun. Hann er ákærður fyrir meint innherjasvik og brot í opinberu starfi.

Aðalmeðferð yfir Baldri hafin

Aðalmeðferð er hafin í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Baldur er ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi, fyrir að hafa með ólögmætum hætti nýtt sér upplýsingar sem hann hafði, umfram aðra, þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir um 192 milljónir króna.

Baldur ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, hefur verið ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi og var honum birt ákæran í dag. Verjandi hans telur ákæruna ekki standast og gagnrýnir hvað rannsókn málsins hefur tafist.

Baldur Guðlaugsson ákærður

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, hefur verið ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi og var honum birt ákæran í dag.

Mál Baldurs Guðlaugssonar til ríkissaksóknara

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, er grunaður um brot í opinberu starfi. Rannsókn sérstaks saksóknara á meintum innherjasvikum hans er lokið og hefur málið verið sent til ákærumeðferðar hjá ríkissaksóknara. Settur ríkissaksóknari tekur ákvörðun í málinu fljótlega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×