Viðskipti innlent

Bakarí þurfa að bæta ráð sitt til að forðast sektir

ingvar haraldsson skrifar
Athugasemdir voru gerðar við verðmerkingar í fimm verslunum Bakarameistarans.
Athugasemdir voru gerðar við verðmerkingar í fimm verslunum Bakarameistarans.
„Augljóst er að verðmerkingar í bakaríum eru langt frá því að vera viðunandi,“ er niðurstaða Neytendastofu eftir athugun stofnunarinnar á verðmerkingum í 46 bakaríum á höfuðborgarsvæðinu, dagana eftir bolludaginn, 17. til 19. febrúar. Neytendastofa telur að fyrirtækin þurfi að fara vel yfir verðmerkingar og verklag í bakaríum sínum og bregðast fljótt við tilmælum Neytendastofu til að forðast sektir.

Stofnunin gerði athugasemdir við verðmerkingar í þrettán bakaríum. Þar af fimm verslunum Bakarameistarans, í Austurveri, Glæsibæ, Húsgagnahöllinni, Smáratorgi og Suðurveri. Einnig voru gerðar athugasemdir við Jóa Fel Holtagörðum, Hringbraut, Kringlunni og Litlatúni, Kökuhornið Bæjarlind, Hverafold Bakarí, Fjarðarbakarí í Grafarholti og Sveinsbakarí Hólagörðum.

Neytendastofa gerði sérstaklega athugasemdir við að rjómabollur væru auglýstar með afslætti án þess að fyrra verð væri gefið upp. „Sérstaklega var tekið eftir vörum sem voru á tilboði t.d rjómabollur sem voru merktar með 50% afslætti eða tvær fyrir eina en upprunalegt verð rjómabollanna kom hvergi fram. Upprunalegt verð vöru sem er á útsölu eða á tilboði þarf alltaf að koma skýrt fram,“ segir í frétt á vef Neytendastofu.

Stofnunin telur stöðuna mikla afturför frá síðustu könnun sem gerð var haustið 2013 en þá voru verðmerkingar í borði í lagi hjá 92% bakaría en nú aðeins í 77% bakaría.


Tengdar fréttir

Verðlagseftirlit með kassastrimlum

Nýtt tæki fyrir neytendur til að fylgjast með verðlagi var kynnt í gær og nefnist "Strimillinn". Hafin er söfnun í gagnagrunn á upplýsingum um matarverð og aðrar nauðsynjar.

Síminn biðst velvirðingar á villandi auglýsingu

Síminn hefur beðist velvirðingar á framsetningu auglýsingar sinnar í kjölfar þess að Fjarskipti hf., móðurfélag Vodafone, sendi Neytendastofu í gær kvörtun vegna auglýsingar Símans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×