Innlent

Bætur fyrir útsýni yfir hafið og Snæfellsjökul

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Mýrargata 26 sést hér á miðri mynd austan við Alliance húsið. Nýbyggingar koma milli húsanna tveggja og norður og vestur fyrir Alliance húsið. Mynd/Kynningarefni Reykjavíkurborgar
Mýrargata 26 sést hér á miðri mynd austan við Alliance húsið. Nýbyggingar koma milli húsanna tveggja og norður og vestur fyrir Alliance húsið. Mynd/Kynningarefni Reykjavíkurborgar
„Þessar breytingar ganga þvert á þær forsendur sem urðu til þess að við völdum að kaupa íbúðina fyrir tveimur árum, þar sem umhverfið, lífsgæðin, birta íbúðarinnar og útsýnið til Snæfellsjökuls vógu þyngst,“ segir í mótmælabréfi vegna fyrirhugaðrar breytingar á skipulagi Alliance-reitsins við Reykjavíkurhöfn.

Fyrir liggur tillaga um að breyta skipulagi sem gert var fyrir Alliance-reitinn árið 2013. Leyfðar verða fjórar hæðir í stað þriggja við hlið Mýrargötu 26 og byggingarmagn ofanjarðar á lóðinni er meira en tvöfaldað; verður 6.700 fermetrar í stað 3.300 fermetra. Bílakjallari minnkar úr 1.500 í 1.400 fermetra. Þá er skilgreiningu reitsins breytt þannig að gert verði ráð fyrir hótelstarfsemi.

Íbúar við Mýrargötu 26, og þá þeir sem eru vestan megin í húsinu, eru áberandi í hópi andstæðinga breytingarinnar. Er fyrrnefnd tilvitnun frá eigendum íbúðar þar, þeim Árna Möller og Signýju Pálsdóttur.



„Um það bil níu metrum frá stofu- og svefnherbergisgluggum okkar munu koma íbúðir með tilheyrandi gluggum og svölum. Þetta skerðir lífsgæði okkar mjög mikið og friðhelgi einkalífsins með öllu horfin nema dregið sé fyrir glugga,“ segir einnig í bréfi Árna og Signýjar. Þau áskilja sér rétt til að krefjast bóta af borginni.

Helga Bragadóttir og Jóhann Sigurjónsson segjast í sínu bréfi hafa keypt íbúð í húsinu í ágúst 2014 eftir að hafa kynnt sér nýtt aðalskipulag og gildandi deiliskipulagsáætlun.

„Vegna einstaks útsýnis frá íbúð 509 og með tilliti til nýrra deiliskipulagsákvæða í næsta nágrenni var ákveðið að verja umtalsverðum fjármunum umfram þá sem greiða þurfti fyrir samskonar íbúðir á hæðum neðar, enda tryggt að ekki yrði byggt vestan íbúða á 5. hæð, sem eru hæðinni hærri en friðað Alliance hús,“ rekja Helga og Jóhann sínar aðstæður. Segja þau verðgildi eignar sinnar munu skerðast og þau áskilja sér einnig rétt til að sækja bætur.

Guðmundur Þorsteinsson bendir í sínu bréfi á að nýtingarhlutfall Alliance-lóðarinnar muni aukast um ríflega 77 prósent. „Það er því ljóst að um meiriháttar breytingar er að ræða á byggingarmagni á umræddum reit og ljóst að slíkt kallar á verulegan forsendubrest þeirra aðila sem fjárfestu í dýrum íbúðum að Mýrargötu 26,“ skrifar hann.

Í bókun meirihlutaflokkanna í borgarstjórn frá í október 2017 er bent á að byggingarmagnið á reitnum verði með þessari tillögu umtalsvert minna en samkvæmt skipulagi sem hafi verið í gildi er borgin keypti reitinn á árinu 2012.

Skipulagsstofnun gagnrýnir framgöngu borgarinnar. „Gögn eru misvísandi varðandi hæðafjölda nýbyggingar milli Alliance hússins og Mýrargötu 26 og viðbrögð við athugasemdum er ófullnægjandi,“ segir stofnunin í bréfi. Helstu athugasemdir sem borist hafi lúti að umtalsverðri aukningu byggingarmagns og hæð nýbygginga. Einnig séu áhyggjur af hóteluppbyggingu og fækkun bílastæða á lóð.

Þá segir Skipulagsstofnun að í greinargerð og svörum borgarinnar við athugasemdum komi fram að meginmarkmið með breytingunni sé að styrkja stöðu Alliance-hússins og skapa stað með sterkan heildarsvip. „Telur Skipulagsstofnun að rökstyðja þurfi betur hvernig þessi útfærsla styrkir stöðu Alliance hússins og uppfyllir önnur markmið breytingarinnar,“ segir stofnunin og bendir á að Minjastofnun telji áformin hafa neikvæð áhrif á Alliance-húsið.

Þá telur Skipulagsstofnun að svör borgarinnar við athugasemdum varðandi nýbygginguna milli Alliance-hússins og Mýrargötu 26 séu ekki rétt hvað varðar hæðafjölda. Húsið sé fjórar hæðir en ekki þrjár eins og komi fram í uppdrætti. „Í svörum við athugasemdum er ýmist sagt að húsið sé þrjár hæðir eða þrjár hæðir séð frá Mýrargötu og aðeins sé verið að breyta formi þess.“

Eigendur fasteigna við Grandagarð 1-13 gagnrýna áformin harðlega af ýmsum ástæðum: „Leggjumst við allir sem einn gegn þeim tillögum sem fyrir liggja um uppbyggingu Alliance reitsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×