Tíska og hönnun

Bæta samfélagið með því að rétta skakkan hlut kvenna í sögunni

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Á myndinni má sjá hluta hópsins, þau Önnu Gyðu, Valgerði, Andreu Björk, Berglindi Sunnu og Arnar Inga í vinnustofu sinni í Hafnarstræti.
Á myndinni má sjá hluta hópsins, þau Önnu Gyðu, Valgerði, Andreu Björk, Berglindi Sunnu og Arnar Inga í vinnustofu sinni í Hafnarstræti. Fréttablaðið/Arnþór
„Verkefnið snýst um kveneflingu,“ segir Andrea Björk Andrésdóttir sem hefur ásamt hópi fólks síðastliðin misseri unnið að því að opna vefsíðu á netinu sem geymir viðamikinn gagnagrunn um konur í gegnum tíðina. „Þetta snýst í raun og veru um að jafna hlutfall kvenna í sögu og sviðsljósi.“ Gagnagrunnurinn verður vefsíða sem aðgengileg er á netinu á léninu reconesse.org. Þar er nú hægt að skrá sig á póstlista til þess að fylgjast með framgangi verkefnisins.

Í hópnum eru auk Andreu; Anna Gyða Sigurgísladóttir, Arnar Ingi Viðarsson, Berglind Sunna Stefánsdóttir, David Gundry, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Valgerður Þóroddsdóttir og Þórhallur Auður Helgason.

Hópurinn segir hlut kvenna í sögukennslu skakkan, það sé bersýnilegt þegar í sögubókum séu færri en tíu konur á hverja hundrað nefnda karlmenn.Fréttablaðið/Arnþór
Ótækt að engin kvennasaga nái inn í skólabækur

„Konur hafa tekið þátt í öllu frá byrjun siðmenningar en ekki fengið sérlega mikla umfjöllun,“ útskýrir Andrea sem lagði stund á sagnfræði við Háskóla Íslands. „Það er í raun ótrúlegt að ekki sé fjallað meira um konur. Þær hafa gert magnaða hluti. Einu sinni var mér bent á að það væri fyndið hvernig skólabækur létu eins og konur hefðu ekki verið til fyrr en í iðnbyltingunni, þá fara þær að vinna og verða skyndilega til.“ Andrea segist hafa tekið mikið eftir þessu ójafnvægi í umfjöllun um kynin í námi sínu og að það hafi truflað sig í langan tíma.

„Það er ótækt að kvennasaga hafi verið svo lengi í gangi og ekkert af því efni nái inn í skólabækur. Sérstaklega þar sem námsgagnastofnun hefur gert samþykkt um að það eigi að vera jafnt kynjahlutfall í bókum en svo var gefin út bók fyrir fáeinum árum þar sem er minnst er á færri en tíu konur fyrir hverja hundrað nefnda karlmenn. Er enginn að pæla í þessu?“ spyr Andrea. Því vildi hópurinn finna lausn á þessu vandamáli, draga konur í fortíð og nútíð fram í sviðsljósið og gera efni um konur aðgengilegt. Þegar hefur hópurinn komið sér í samband við kvennasöfn víðsvegar um heiminn, til að mynda Kosta Ríka og Austurríki, og komið upp samstarfi. Þannig fá þau texta frá hverju og einu landi um konu sem á rætur sínar að rekja þaðan. 

Veita konum framtíðarinnar stuðning og fyrirmyndir

Vefsíðunni, Reconesse Database, er skipt í þrjá hluta – fortíð, nútíð og framtíð. Í fortíðarhlutanum verður hægt að finna umfjöllun um hinar ýmsu konur. Konur sem hafa verið mikilvægar sögunni en ekki verið kenndar mikið í skólum. Nútíðarhlutinn verður fréttaveita og vill hópurinn sér í lagi einbeita sér að jákvæðum fréttum um konur í heiminum í dag - mismunandi stöðu þeirra og fróðleik um hvað þær eru að gera í dag. Framtíðarhlutinn er síðan ætlaður til hvatningar. „Við miðum framtíðarhlutann að stelpum af því að þær vantar hreinlega hvatningu og kvenkyns fulltrúa,“ útskýrir Andrea. „Þar getur þú fundið hjálp við að framkvæma þína drauma.“ Í framtíðarhlutanum verður hægt að leita að leiðbeinanda, fá stuðning við að sækja um styrki í skóla, upplýsingar atvinnumöguleika og fleira. „Þessu er ætlað að efla fólk og koma þeim af stað með sína framtíð.“  

Hugmyndin að vefsíðunni kviknaði sumarið 2012 hjá Berglindi Sunnu sem langaði til þess að gera konum hærra undir höfði í sögulegu samhengi og hafði samband við Andreu. „Síðan byrjuðum við að vinna í þessu í janúar 2013, bara hægt, og fórum að týna saman teymi.“ Hópurinn fékk styrk frá Rannís á síðasta ári og fékk því í sumar loks tækifæri til þess að vinna að síðunni í fullu starfi. 

Efnið á síðunni unnið af notendunum sjálfum

Mikið er lagt upp úr fallegri hönnun og að vefsíðan verði aðgengileg notendum. „Það á að vera mjög auðvelt að bjóða fram upplýsingar og taka þátt í verkefninu. Efnið á að koma frá notendum en allir textar verða yfirfarnir af sérfræðingum á hverju sviði.“ Unnið verður að gagnagrunninum allt næsta haust og efnið prófað á menntaskólanemum. Verður hann mögulega tilbúinn og opnaður um næstu áramót en það fer eftir því hvernig gengur enda verkefnið viðamikið. Þegar gagnagrunnurinn opnar verða skýrar leiðbeiningar um þátttöku en hópurinn vill leggja ríka áherslu á að tekið verði vel á móti öllum sem hafa áhuga á að taka þátt.

„Markmið okkar er að gera konur sýnilegri bæði hjá konum og körlum og með því bæta samfélagið.“ 

Hópurinn er metnaðarfullur og stefnir á að gera stærsta gagnagrunn um konur sem til er í heiminum og hvetja um leið konur framtíðarinnar til dáða.Fréttablaðið/Arnþór
.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×