Skoðun

Bændur stuðla að lágu matvöruverði

Hörður Harðarson skrifar
Rétt er að vekja athygli á niðurstöðu nýrrar könnunar Eurostat um matvælaverð í Evrópu. Hún er að Íslendingar njóta lægsta matvöruverðsins á Norðurlöndunum og hefur það lækkað nokkuð hin síðustu ár. Ein helsta ástæða þessa er að verð á landbúnaðarafurðum á Íslandi hefur eftir hrun haldist lágt í samanburði við önnur lönd. Staðreyndin er nefnilega sú að verð á íslenskum landbúnaðarafurðum hefur hækkað minna en aðrar vörur heimilisins og meira að segja vegið upp verðhækkanir á innfluttum vörum sem hækkuðu mjög eftir gengisfall krónunnar. Því má segja að íslenskir bændur leggi sitt af mörkum við að halda niðri verðlagi á matvörum á Íslandi.

En betur má ef duga skal. Íslenskir neytendur vilja lægra matvöruverð og þrátt fyrir jákvæðan samanburð við önnur norræn ríki er það um 20% yfir meðaltali innan Evrópu. Það liggur fyrir að hátt matvöruverð er ekki á ábyrgð íslenskra bænda heldur þvert á móti. En hvar liggur þá ábyrgðin?

Haustið 2012 kynntu fulltrúar alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company viðamikla úttekt á hagvaxtarmöguleikum Íslands. Á meðal þess sem McKinsey bendir á eru leiðir til að lækka vöruverð á Íslandi. Fyrirtækið komst að því að á Íslandi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, fara miklu fleiri fermetrar undir verslun samanborið við önnur Norðurlönd.

Lengri afgreiðslutími

Jafnframt tóku erlendu sérfræðingarnir eftir því að afgreiðslutími verslana hér á landi er miklu lengri en hjá nágrönnum okkar. Hér á landi er því of mikið fjármagn bundið í verslunarhúsnæði og of miklu rekstrarfé varið til þess að halda úti allt of löngum afgreiðslutímum. Þessar einföldu staðreyndir sýna að hægt er að hagræða verulega hjá verslunum á Íslandi íslenskum neytendum til hagsbóta. Undirritaður er í það minnsta sannfærður um að þó það komi eflaust fyrir að það sé heppilegt að geta skotist í næsta stórmarkað á nóttunni að versla í matinn kjósi neytendur lægra vöruverð fram yfir slíka þjónustu.

Það er eðlilegt að forsvarsmenn verslunarinnar í landinu greini frá því hvernig brugðist hefur verið við þessum ábendingum McKinsey og hvort íslenskir neytendur megi búast við lægra vöruverði. Ef verslunin heldur rétt á sínum málum gætum við Íslendingar kannski farið að bera matvöruverð okkar saman við meðaltalið í Evrópu fremur en á Norðurlöndunum. Væntanlegu eru allir sammála um að ekki sé ástæða til að innkaup heimilanna í landinu séu óhagstæð vegna offjárfestingar í verslunarhúsnæði og óeðlilegs afgreiðslutíma.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×