Innlent

Bændur spara marga tugi milljóna með sjálfboðaliðum

Sveinn Arnarsson skrifar
Mörg handtök þarf í landbúnaði, en um þau störf gilda kjarasamningar.
Mörg handtök þarf í landbúnaði, en um þau störf gilda kjarasamningar. vísir/valli
Bændur koma sér undan rúmlega eitt hundrað milljóna króna launakostnaði í hverjum mánuði með nýtingu sjálfboðaliða sé mið tekið af fjölda auglýsinga bænda á netinu. Alþýðusamband Íslands hefur tekið saman fjölda auglýsinga bænda um sjálfboðaliða á næstu mánuðum en óskað er eftir tæplega þrjú hundruð sjálfboðaliðum í vor og sumar.

„Miðað við grunnlaun í landbúnaði og tvo yfirvinnutíma á dag og vinnu á laugardögum þá er verið að spara um 390 þúsund krónur í launakostnað á hvern sjálfboðaliða,“ segir Dröfn Haraldsdóttir, sérfræðingur hjá ASÍ. „Á síðum þar sem óskað er eftir sjálfboðaliðum í landbúnaði er verið að óska eftir um 280 starfsmönnum. Miðað við þann fjölda má áætla að bændur séu að spara sér um 108 milljónir króna á mánuði í launakostnað,“ bætir Dröfn við.

Hér eru aðeins skoðaðar þær auglýsingar sem opinberar eru á heimasíðum. Einnig er eitthvað um að sjálfboðaliðar komi hingað til lands með öðrum leiðum og svo er einnig auglýst á Facebook eftir sjálfboðaliðum.

Dröfn segir það einnig mikilvægt fyrir vinnuveitendur að hafa allt uppi á borðum og fylgja settum reglum. „Við vitum dæmi þess að bóndi hafi þurft að bregða búi eftir að sjálfboðaliði lenti í slysi við vinnu hjá honum. Þetta fólk er ekki tryggt og það þurfti að greiða bætur eftir málaferli,“ segir Dröfn.

Einnig eru dæmi um að sjálfboðaliðar hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi hér á landi á þeim stöðum sem þeir hafi verið við sjálfboðaliðastörf.

Fréttablaðið hefur greint frá því að auglýst er mjög mikið eftir sjálfboðaliðum í ferðaþjónustu og í landbúnaði hér á landi. Starfsgreinasambandið vinnur í því að vakta slíkar síður til að koma upp um svindl á vinnumarkaði og að greitt sé fyrir vinnu eftir kjarasamningum.

Um störf í landbúnaði gilda kjarasamningar sem Bændasamtök Íslands hafa samið um við Starfsgreinasambandið. Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir mikilvægt að bændur fari eftir kjarasamningum og greiði laun fyrir þau störf sem unnin eru.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×