Innlent

Bæjaryfirvöld töldu gögn innihalda símtöl farsíma

sveinn arnarsson skrifar
Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.
Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir fulltrúa minnihlutans í bæjarstjórn hafa farið of geyst með að kæra skoðun bæjarins á símtalaskrám. Segir í tilkynningu frá Vodafone að þau gögn sem bárust Hafnarfjarðarbæ hafi verið viðaminni en talið var í fyrstu og einungis símanúmer sem bærinn greiðir að fullu hafi verið skoðuð. Þannig hafi farsímar bæjarfulltrúa ekki verið skoðaðir.

„Eftir að í ljós hefur komið að Vodafone sendi einungis gögn yfir þá síma sem Hafnarfjarðarbær greiðir að fullu, er ljóst að minnihlutinn í bæjarráði hefur farið of geyst í að kæra málið til Persónuverndar. Fulltrúar minnihlutans hafa ekki getað setið á sér og beðið eftir formlegum útskýringum og upplýsingum tengdum málinu frá embættismönnum bæjarins,“ segir Rósa.

Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar, segist fagna því að nú séu komnar fram staðreyndir í málinu og segir umfjöllun um það hafa einkennst af ítrekuðum getgátum og rangfærslum. „Ég lít mjög alvarlegum augum þær fullyrðingar sem settar voru fram berum orðum í Fréttablaðinu þann átjánda febrúar og síðan í hádegisfréttum Bylgjunnar sama dag, að bæjarfulltrúar meirihlutans hefðu rannsakað síma minnihlutans. Yfirlýsing Vodafone staðfestir nú að sú langsótta og ærumeiðandi túlkun er röng.“

„Bæjó liggur á bakinu á mér“

Hafnarfjarðarbær sendi í þrígang fyrirspurn til Vodafone. Fyrsta beiðni bæjarins, dagsett á Þorláksmessu, sýnir að beðið er um upplýsingar um úthringingar úr símstöð bæjarins. Í því tölvubréfi er ekki beðið um gögn um notkun farsímanúmera bæjarins.

Guðmundur Ragnar Ólafsson, innkaupastjóri bæjarins, ítrekar beiðnina þann 30. desember í bréfi til starfsmanns Vodafone. „Sæll Steini minn, veistu eitthvað um stöðuna á númerabirtingunni? Bæjó liggur á bakinu á mér.“

Enn hafði ekkert svar borist bænum þann 12. janúar þegar Guðmundur Ragnar ítrekar beiðni bæjarins aftur. Í því bréfi er beðið um gögn sem sýni hvort einhver sími Hafnarfjarðarbæjar hafi hringt í númer hafnarstarfsmannsins Guðna Einarssonar.

Oddvitar skoðuðu ekki gögn

Þrír bæjarfulltrúar minnihlutans í Hafnarfirði hafa kvartað til Persónuverndar vegna þess að bærinn hafi skoðað símtalaskrár starfsmanna sinna án samþykkis þeirra.

Rósa ítrekar að fulltrúar meirihlutans komu hvergi nærri skoðuninni. „Málið var kært án tafar og blásið upp í fjölmiðlum. Það er dapurlegt að við fulltrúar meirihlutans, sem hvergi komum nálægt þessu, höfum verið vænd af fulltrúum minnihlutans um að hnýsast í símtalaskrá bæjarfulltrúa. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir og vega að æru fólks. Áskil ég mér rétt til að skoða þann þátt málsins frekar.“

Fréttablaðið greindi fyrst frá því þann 18. febrúar að Hafnarfjarðarbær hafi skoðað símtalaskrár kjörinna fulltrúa. Bæjarfulltrúar eru með símanúmer frá bænum og taldi bærinn sig hafa fengið upplýsingar um þau símanúmer. Komið hefur í ljós að bærinn var ekki með þær upplýsingar sem hann taldi sig vera með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×