Innlent

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði munu grípa til aðgerða við stífluna

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði munu grípa til aðgerða og breytinga á svæðinu við Reykdalsstíflu, þar sem tveir ungir drengir lentu í lífsháska í síðustu viku, til að tryggja að slíkt gerist ekki aftur. 

„Við höfum verið með okkar fólki að skoða þetta síðan þetta alvarlega slys átti sér stað. Þeir starfsmenn sem hafa verið að vinna að þessu munu legja fram tillögur fyrir framkvæmdaráð, væntanlega á miðvikudaginn.  Í framhaldi af því munum við væntanlega grípa til þeirra aðgerða sem að lagt er til að verði farið í til að reyna að tryggja það að svona lagað geti ekki gerst aftur,“ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Drengirnir, sem eru 9 og 12 ára bræður, komnir voru hætt komnir eftir að hafa fest sig í fossi sem rennur af stíflunni.  Eldri drengurinn komst fljótt til meðvitundar en þeim yngri var fyrst um sinn haldið sofandi í öndunarvél. Hann var útskrifaður af gjörgæsludeild í gær.

Lónið við stífluna hefur nú verið tæmt og foss­inn stöðvaður. Lónið verður ekki fyllt aftur fyrr en viðeigandi ráðstafanir hafa verið gerðar.

Haraldur vill þakka þeim sem að björguninni komu.

„Mig langar til að þakka öllum þeim sem komu að þessari björgun og gátu séð til þess að þetta varð þó ekki verra heldur en varð,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×