Innlent

Bæjarstjórinn vill hefja viðræður við HB Granda strax á morgun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sævar Freyr Þráinsson, bæjastjóri á Akransi.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjastjóri á Akransi. Vísir/Eyþór
Sævar Freyr Þráinnsson, bæjarstjóri Akranesbæjar, segist vera þakklátur HB Granda eftir að félagið tók ákvörðun um að fresta uppsögnum í botnfiskvinnnslu félagsins og ganga til viðræðna við bæjarfélagið.

„Nú er tækifæri til að við getum sest niður til samninga. Vonandi strax á morgun,“ segir Sævar Freyr í samtali við Vísi. Akranesbær samþykkti viljayfirlýsingu í gær þar sem biðlað var til HB Granda um að fresta ákvörðun sinni. 93 störf voru í hættu um mánaðarmótin en HB Grandi gefur sé nú til 1. júní til þess að ljúka viðræðum við bæjarfélagið.

Bæjarstjórnin lagði fram fjórar tillögur að útfærslu á framkvæmdum við höfnina á Akranesi til að koma til móts við HB Granda. Á meðal þeirra er 40.000 fermetra landfylling þar sem hægt væri að koma fyrir lóðum fyrir starfsemi félagsins.

Sjá einnig: Vilhjálmur segir frestun uppsagna vera varnarsigur

Sævar bendir þó á að Faxaflóahafnir þurfi einnig að koma að viðræðunum en treystir því að þar á bæ verði vel tekið í tillögur bæjarins.

„Eins og ég hef sagt þá þarf þrjá til,“ segir Sævar Freyr. „Þriðji aðilinn er Faxaflóahafnir og ég er sannfærður um að þeir muni ekki liggja á liði sínu til þess að koma þessu í heila höfn.“

Líkt og áður segir gefur HB Grandi sér til 1. júní til að ljúka viðræðum. Fáist ekki jákvæð niðurstaða mun félagið loka botnfiskvinnslunni á Akranesi þann 1. september.

Sævar Freyr segir að bæjarbúar geri sér grein fyrir því að mikil vinna sé fyrir höndum og ekkert sé fast í hendi, nú sé þó von um að það fáist farsæl niðurstaða í málið.

„Það er von og við ætlum að leggja allt í það að breyta þeirri von í árangur.“


Tengdar fréttir

Forstjóri HB Granda: „Við erum ekkert í neinum leik“

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir að verði yfir það í dag hvort að áform bæjarstjórnar Akraness um uppbyggingu á hafnarsvæði bæjarins breyti einhverju um þær fyrirætlanir útgerðarinnar að flytja landvinnslu botnfisks frá Skaganum og til Reykjavíkur.

Neyðarfundur vegna aðgerða HB Granda

Tæplega hundrað starfsmönnum í botnfiskvinnslu HB Granda á Akranesi verður sagt upp og vinnslan færð til Reykjavíkur. Þingmenn kjördæmisins og bæjarstjórn funduðu í gærkvöldi vegna málsins.

Vilhjálmur segir frestun uppsagna vera varnarsigur

"Þetta er viss varnarsigur sem er fólginn í þessu,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðs Akraness, um ákvörðun HB Granda að fresta uppsögnum í botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi og hefja viðræður við Akranesbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×