Innlent

Bæjarstjóri með tvær milljónir á mánuði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gunnar Einarsson.
Gunnar Einarsson.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, er með tæplega 1,8 milljónir króna í mánaðarlaun að frátöldum aukagreiðslum fyrir fundarsetu. Fólkið í bænum, M-listinn í Garðabæ, upplýsir um launakjör bæjarstjórans á Facebook í kvöld.

Fulltrúar M-listans spyrja hvort fólki finnist laun bæjarstjórans sanngjörn eða hæfileg. Laun Gunnars hjá Garðabæ eru 1.762.908 krónur en við bætast 91 þúsund krónur í laun hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og 88 þúsund krónur í laun hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Þá kemur fram að bæjarstjóri fái greidd laun fyrir fundi sem hann situr í bæjarstjórn sem varabæjarfulltrúi. Nema launin fyrir hvern fund tæplega 38 þúsund krónum.

Tölurnar sem M-listinn greinir frá eru laun Gunnars í júní.

Uppfært klukkan 15

Upphaflega var sagt að bæjarstjóri fengi 132 þúsund krónur í bifreiðahlunnindi. Hið rétta er að bæjarstjóri greiðir 132 þúsund krónur sem dragast frá launum hans þar sem bærinn lætur honum í té bifreið sem bærinn greiðir allan kostnað af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×