Innlent

Bæjarráðið í Eyjum neitar að greiða orlof til húsmæðra

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Hildur Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri Kvenfélagasambands Íslands segir að sveitarfélög hafi áður látið reyna á þetta án þess hafa erindi sem erfiði.
Hildur Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri Kvenfélagasambands Íslands segir að sveitarfélög hafi áður látið reyna á þetta án þess hafa erindi sem erfiði.
Bæjarráð Vestmannaeyja hafnaði því á fundi sínum á þriðjudag að greiða húsmæðraorlof fyrir árið 2016. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir að það sé gert vegna jafnréttis en Hildur Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri Kvenfélagasambands Íslands, bendir á að þessi gjörningur bæjarins sé ekki samkvæmt lögum.

Bæjarráð Vestmannaeyja segir í fundargerð sinni að ráðið sé einbeitt í vilja sínum að hafa jafnrétti að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Elliði ítrekar að bærinn starfi eftir jafnréttislögum og húsmæðraorlof falli ekki undir þau lög.

„Við teljum að okkur sé ekki lengur fært að greiða þetta. Okkur finnst undarlegt að vera sett í þá stöðu að þurfa að velja eftir hvaða lögum við förum. Ef við förum eftir lögum um orlof húsmæðra þá erum við klárlega að brjóta jafnréttislög, hið minnsta.“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.Mynd/Óskar Pétur
Bæjarráðið bendir í rökstuðningi sínum á að lög um orlof húsmæðra uppfylli ekki skilyrði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla enda fá húsfeður og eða ekklar ekki notið til jafns við konur þess orlofs sem lögin kveða á um.

„Ljóst má því telja að lög um orlof húsmæðra brjóta gegn lögum um jafna stöðu karla og kvenna og grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar,“ segir í rökstuðningi bæjarráðs. 

Elliði segir að menning og hefð sé í kringum þessar greiðslur en það sé ekki nóg til að fá þær.

„Upphaflega kemur þetta frá kvennafundi bæjarstjórnar sem var haldinn árið 2008. Mér myndi finnast slæmt ef bæjarráð dagsins í dag, sem eingöngu er skipað karlmönnum, myndi ganga gegn þessari ákvörðun. Þetta er umdeilt eins og svo mörg mannanna verk.“

Hildur Helga segir að Vestmannaeyjabæ sé skylt að greiða orlofið.

„Þeir geta ekki sparað þessar krónur frekar en að greiða önnur lögbundin gjöld. Þetta er klárlega brot á lögum. Kvenfélög hafa farið innheimtuleiðina og alltaf unnið þau. Þetta er sorglegt mál því kvenfélagið þar er stór hluti af samfélaginu þarna.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×