Fótbolti

Bæjarar flengdu Hamburg á heimavelli

Leikmenn Bayern fagna einu af átta mörkum leiksins.
Leikmenn Bayern fagna einu af átta mörkum leiksins. Vísir/getty
Það má segja að leikmenn Hamburg hafi fengið sína árlega flengingu gegn Bayern Munchen á Allianz Arena í þýsku úrvalsdeildinni í dag en leiknum lauk með 8-0 sigri Bæjara sem halda fimm stiga forskoti á toppi deildarinnar.

Heimamenn voru lengi af stað en Arturo Vidal og Robert Lewandowski skoruðu mörk Bæjara í fyrri hálfleik sem leiddu 3-0 þegar gengið var til búningsklefanna. Pólski framherjinn fullkomnaði þrennu sína snemma í seinni hálfleiks en David Alaba, Kingsley Coman(2) og Arjen Robben áttu allir eftir að bæta við mörkum.

Ótrúlegur 8-0 sigur staðreynd og mikil niðurlæging fyrir Hamburg en þetta er í annað skiptið á síðustu tveimur árum sem Hamburg fær 8-0 skell á þessum geysisterka heimavelli. Þá unnu Bæjarar 9-2 sigur á Hamburg fyrir fjórum árum en á síðasta tímabili skoruðu þeir aðeins fimm mörk í 5-0 sigri.

Orkudrykkjardrengirnir í RB Leipzig halda áfram að halda í við Bæjara við topp deildarinnar en Leipzig vann 3-1 sigur á heimavelli gegn Köln í dag og heldur því áfram átta stiga forskoti á næstu lið.

Lærisveinar Thomas Tuchel í Dortmund unnu öruggan 3-0 sigur á Freiburg á útivelli í dag og lyftu sér með því upp í 3. sæti deildarinnar en Hoffenheim getur jafnað Dortmund að stigum á morgun.

Þá unnu liðsfélagar Alfreðs Finnbogasonar nauman 2-1 sigur á botnliði Darmstadt á útivelli í dag en með sigrinum lyftir Augsburg sér upp í 11. sæti deildarinnar, upp fyrir Borussia Mönchengladbach og Schalke, sem eiga leiki á morgun.

Úrslit dagsins:

Bayer Leverkusen 0-2 FSV Mainz

Bayern Munchen 8-0 Hamburg SV

Darmstadt 1-2 FC Augsburg

RB Leipzig 3-1 FC Köln

SC Freiburg 0-3 Dortmund




Fleiri fréttir

Sjá meira


×