Skoðun

Baðstofutímabilið er liðið á Íslandi

Helga Ingólfsdóttir skrifar
Launþegar þessa lands bera ekki ábyrgð á því efnahagshruni sem varð fyrir sex árum en urðu verr úti en okkar nágrannaþjóðir vegna mikillar áhættusækni og skuldsetningar íslenskra banka og viðskiptajöfra.

Þegar Geir Haarde bað guð að blessa Ísland fór landinn út í búð og keypti sér lopa og sneri sér að ýmsum heimilisiðnaði til að jafna út kaupmáttarskerðinguna sem fólst í hruni krónunnar. Landinn sneri sér sem sagt að uppruna sínum og tók til við ýmiss konar handverk í anda baðstofunnar.

Bland.is blómstrar sem og alls konar síður sem selja notaðar vörur og það er auðvitað mjög gott að við sóum minna og endurnýtum alls konar hluti.

En núna, sex árum síðar, þegar sem betur fer ýmis ytri skilyrði hafa verið okkur hagstæð og fyrirtæki og þjónustugreinar eru að rétta vel úr kútnum, er kominn tími til að stíga föst og örugg skref í þá átt að launþegar fái til baka þá skerðingu sem þeir urðu fyrir við hrun og að laun þeirra batni í samræmi við bætta afkomu fyrirtækja og ríkissjóðs.

Það svigrúm sem er til staðar til hækkunar launa án þess að verðbólga fari á flug á að nýta til þess að hækka neðri þrep launastigans til þess að bæta kjör þess hóps sem verst varð úti í hruninu. Þessu markmiði má auðveldlega ná með krónutöluhækkunum sem stiglækka upp launastigann og þannig ógna ekki verðbólgumarkmiðum og stöðugleika. Og þessu þarf síðan að fylgja eftir með bættri framleiðni og skipulagningu en þar er verk að vinna í okkar samfélagi.

Krafa launþega er að þeir fái sanngjarnan hlut þeirrar arðsemi sem þeir eiga þátt í að skapa og að samningsaðilar muni nú eftir þeim hópi sem einna helst tók á sig auknar byrðar í hruninu.

Hefurðu sögu að segja eða skoðun að deila? Ef svo er sendu okkur grein ásamt mynd á netfangið ritstjorn(hja)visir.is


Tengdar fréttir




Skoðun

Sjá meira


×