Íslenski boltinn

Báðar Antonsdæturnar búnar að finna sér ný lið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hildur er búin að semja við Breiðablik.
Hildur er búin að semja við Breiðablik. vísir/valli
Hildur Antonsdóttir er gengin í raðir Breiðabliks frá Val. Hildur er komin með leikheimild og gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Blika þegar liðið mætir Selfossi eftir viku.

Hildur og systir hennar, Heiða Dröfn, hættu hjá Val fyrir skemmstu en þær eru báðar búnar að finna sér ný lið. Heiða Dröfn fór til HK/Víkings í 1. deildinni og Hildur til Breiðabliks eins og áður sagði.

Hildur, sem er tvítugur miðjumaður, hefur leikið með Val allan sinn feril. Hún kom við sögu í átta leikjum hjá Val í sumar en hún hefur alls leikið 80 leiki í efstu deild og skorað 12 mörk.

Þá lék Hildur fjölda leikja með yngri landsliðum Íslands á sínum tíma.

Hildur er þriðji leikmaðurinn sem Breiðablik fær til sín í félagaskiptaglugganum en áður voru Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Olivia Chance komnar í Kópavoginn.

Það kvarnast talsvert úr leikmannahópi Blika seinna í sumar en þrír byrjunarliðsmenn - Ásta Eir Árnadóttir, Guðrún Arnardóttir og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir - fara til náms í Bandaríkjunum.

Það verður nóg að gera hjá Blikum í ágúst þar sem liðið leikur alls átta leiki; fjóra í Pepsi-deildinni, úrslitaleikinn í Borgunarbikarnum við ÍBV og svo þrjá leiki í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×