Innlent

Bað fyrir stjórnendum RÚV: "Þetta sýnir að bænin virkar“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Svanhildur mætti í gær og í dag fyrir utan Útvarpshúsið. Hér er hún í hádeginu í dag.
Svanhildur mætti í gær og í dag fyrir utan Útvarpshúsið. Hér er hún í hádeginu í dag. Vísir/GVA
Svanhildur Hákonardóttir hefur undanfarna tvo daga mætt í hádeginu og farið með bænir fyrir utan Útvarpshúsið í Efstaleiti og beðið til guðs að útvarpsstjóri breyti ákvörðun sinni að taka Morgunbænina og Orð dagsins af dagskrá Rásar 1. Í hádegisfréttum RÚV var svo tilkynnt að hætt hefði verið við dagskrárbreytinguna og fékk því Svanhildur vilja sínum framgengt.

„Nú þakkar maður bara fyrir sig,“ segir Svanhildur. Hún mætti fyrst í hádeginu í gær. Hún sagði frá því í Facebook-hópnum Orð dagsins og Morgunbænin áfram á RÚV. Svo virðist sem hún hafi misskilið ákall Jónu Hrannar Bolladóttur, sem hvatti meðlimi hópsins að mæta og biðja saman fyrir utan Útvarpshúsið á föstudaginn. Jóna Hrönn setti ákallið inn í hópinn á sunnudaginn og á mánudaginn skrifaði Svanhildur:

„Við vorum alveg heilar þrjár sem mættu til að biðja fyrir framan útvarpshúsið kl. 12 ī hådeginu. Við höfum greinilega verið að misskilja fólk sem ætlaði að mæta! En þegar tveir eða fleirri eru saman komnir er ég mitt á meðal segir Drottinn Jesú Kristur. Takk stelpur sem mættuð fyrir trúfesti ykkar.“

Svanhildur fyrir utan útvarpshúsið í hádeginu.Vísir/GVA
Gekk fram og tilbaka

„Þetta var smávegis misskilningur,“ segir Svanhildur í samtali við Vísi en hún gerði það besta úr stöðunni og mætti bara aftur í dag. Þá var hún ein. „Ég gekk þarna fram og til baka og bað guð að opna augu þessara stjórnenda. Bænin er það sterkasta sem við eigum og ég vildi leggja mitt að mörkum,“ segir hún.

Svanhildur segir það hafa verið mikið baráttumál fyrir sig að halda daglegum bænastundum á Rás 1. „Ég hlusta oft á þetta og veit um fleiri sem það gera. Bænin hefur bjargað ótrúlega mörgum. Trúin er í kjarna manneskjunnar. Ég hef til dæmis heyrt frá hjúkrunarfræðingum sem hafa annast fólk í lífshættu. Þó svo að fólk sé ekki trúað þá snýr sér það til guðs í erfiðleikum.“

Leitt mig frá myrkrinu til ljóssins

Svanhildur segir að trúin hafi hjálpað sér í gegnum tíðina. „Trúin breytti lífi mínu. Leiddi mig frá myrkrinu til ljóssins. Ég er afar ánægð með þessa ákvörðun stjórnenda RÚV og finnst þetta bera þess merki að fyrirbænirnar hafi virkað,“ segir hún þakklát.

En er þetta í fyrsta sinn sem þú hefur verið bænheyrð.

„Nei, þetta er alls ekki í fyrsta skiptið. Og þetta er ekki í fyrsta sinn og ekki í tíunda sinn sem bænir hafa borið árangur. Og heldur ekki í síðasta sinn. Ég er ótrúlega ánægð með þetta. Við vildum halda þessu inni. Það voru margir sem voru á þessari skoðun. Það var mikill fjöldi kominn í hópinn á Facebook. Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir okkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×