Enski boltinn

Austin réttir sínu gamla félagi hjálparhönd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Charlie Austin í leik með Southampton.
Charlie Austin í leik með Southampton. Vísir/Getty
Charlie Austin hefur gert sitt til að hjálpa sínu gamla félagi, utandeildarliðinu Poole Town, að halda sæti sínu í sjöttu efstu deild á Englandi.

Félagið þarf að vinna ákveðnar endurbætur á heimavelli sínu til að halda sætinu en framkvæmdirnar kosta um 70 þúsund pund, tæpar tíu milljónir króna.

Austin er 27 ára en lék með Poole Town frá 2008 til 2009 og skoraði þá 48 mörk í 42 leikjum. Þá hélt hann til Swindon Town en síðan þá hefur hann leikið með Burnley, QPR og nú Southampton.

Austin hefur boðist til að lána gamla félaginu VIP-stúkuna sína á St. Mary's-leikvanginum, heimavelli Southampton, þar sem að forráðamenn Poole geta boðið áhugasömum fjárfestum á leiki í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta er stórt og mikið verk sem er verið að biðja okkur um að gera,“ sagði varaforsetinn Chris Reeves í samtali við BBC.

„Liðið hefur staðið sig frábærlega innan vallar. En við þurfum að standa okkur hvað leikvanginn okkar varðar.“

„Það er bara óhugsandi að við föllum um deild. Á einn eða annan hátt verðum við að brúa þetta bil.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×