Innlent

Austfjarðatröllið biður um hjálparhönd

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Magnús Ver Magnússon lofar hrikalegum aflraunum þegar sterkustu konur og karlar landsins etja kappi.
Magnús Ver Magnússon lofar hrikalegum aflraunum þegar sterkustu konur og karlar landsins etja kappi.
„Því miður er staðan sú að við ráðum ekki við þetta án fjárhagsaðstoðar,“ segir aflraunamaðurinn Magnús Ver Magnússon, sem nú leitar fjárhagsaðstoðar hjá fyrirtækjum og sveitarfélögum til að halda kraftakeppnir á Austurlandi.

Að því er fram kemur í bréfi Magnúsar til sveitarfélaga er stefnt að því að halda bæði Austfjarðatröllið og Valkyrju Íslands 2015 víðs vegar um Austurland í júlí eða ágúst. „Aflraunamenn og konur etja þar kappi við hrikalegar aflraunir og við hverja aðra,“ segir Magnús.

Gífurlegur kostnaður fylgir mótinu og þáttagerð fyrir sjónvarp að sögn Magnúsar. „Því miður hefur innkoma okkar til að dekka kostnað ekkert aukist undanfarin ár, frekar minnkað eftir hrun. En allur kostnaður hefur farið upp úr öllu valdi; kostnaður eins og leiga á rútu, sendibíl, eldsneyti og við þáttagerðina svo eitthvað sé nefnt.“

Þá segir Magnús að gerður verði sjónvarpsþáttur um keppnina og hann afhentur fullunninn til RÚV. „Er fléttað saman við aflraunirnar hrikalegri náttúru, sögu staðanna sem farið er á og lífi fólksins þar fyrr og síðar, þetta á að vera svona menningarþáttur í bland við krafta!“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×