Innlent

Aukinn fjöldi greinist með kynsjúkdóma

Svavar Hávarðsson skrifar
Fleiri greinast með kynsjúkdóma og virðist minni notkun smokksins vera hluta skýringarinnar.
Fleiri greinast með kynsjúkdóma og virðist minni notkun smokksins vera hluta skýringarinnar. Vísir/GVA
Landlæknir telur ástæðu til að vekja athygli á auknum fjölda þeirra sem greinst hafa á undanförnum árum með kynsjúkdóma, einkum sárasótt og lekanda. Vakin hefur verið athygli á því af embættinu að það kunni að hafa verið slakað á notkun smokka við kynmök eftir að öflug meðferð við HIV-sýkingu kom fram.

Sóttvarnalæknir telur mikilvægt að vekja athygli á þessari þróun, einkum meðal þeirra sem teljast til áhættuhópa.

Það sem af er ári hafa greinst jafn mörg tilfelli af sárasótt hér á landi og allt árið 2015. Er það mat sóttvarnalæknis að það staðfesti aukningu á sjúkdómnum á undanförnum þremur árum.

Árið 2014 greindust sautján tilfelli af sárasótt og árið 2015 greindust 24 tilfelli. Af þeim sem greinast með sjúkdóminn eru 90% karlmenn en flestir þeirra sem sýktust voru karlar sem stunda kynlíf með öðrum körlum. Af þeim sem sýktust voru flestir á aldrinum 30 til 39 ára.

Á undanförnum þremur árum hefur einstaklingum sem greinst hafa með lekanda fjölgað jafnt og þétt. Á árinu 2014 greindust 38 einstaklingar, árið 2015 voru þeir 46 og það sem af er árinu 2016 hafa 68 greinst með lekanda.

Flestir eru í aldurshópnum 20 til 29 ára og eru 77 prósent þeirra karlmenn. Smit tengist samkynhneigð í yfir 70 prósent tilfella það sem af er árinu 2016. Enn sem komið er tengist lekandi hér á landi ekki sýklalyfjaónæmi en víða erlendis er það vaxandi vandamál.

Mánaðarlegur fjöldi þeirra sem greinst hefur með klamydíusmit á þessu ári er svipaður og á árinu 2015. Vorið 2016 greindust óvenju margir einstaklingar með HIV-sýkingu sem náði hámarki í apríl síðastliðnum. Það sem af er árinu 2016 hafa fleiri greinst með HIV-sýkingu en allt árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×