Erlent

Aukin spenna yfir Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússar hafa birt myndbönd af loftárásum sínum og segjast hafa gert fimmtán árásir í gær.
Rússar hafa birt myndbönd af loftárásum sínum og segjast hafa gert fimmtán árásir í gær. Vísir/EPA
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir rof Rússa á lofthelgi Tyrklandi, ekki hafa verið slys. Hann segir Rússa ekki hafa komið fram með haldbærar skýringar á því að rússneskar herþotur rufu lofthelgi Tyrklands tvisvar sinnum í gær og í fyrradag. Yfirvöld í Rússlandi segja fyrsta skiptið einungis hafa varið í nokkrar sekúndur og það hafi gerst vegna veðurs. Hitt skiptið sé nú í skoðun.

Ríkisstjórn Tyrklands hefur kallað sendiherra Rússa á fund í annað sinn vegna flugs herþotu inn fyrir lofthelgi landsins í gær.

Flugher Rússlands hóf loftárásir í Sýrlandi í síðustu viku. Þeir segjast gera loftárásir á Íslamska ríkið og aðra hryðjuverkahópa. NATO og fleiri ríki segja þó að Rússar geri loftárásir á svokallaða hófsama uppreisnarhópa sem berjist til að koma Bashar al-Assad, forseta Sýrlands og bandamanns Rússlands, frá völdum.

Stoltenberg sagði einnig að samskiptalínur á milli NATO og Rússlands séu opnar, en þær hafi hins vegar ekki verið notaðar hingað til. Hann sagði viðveru Rússlands í Sýrlandi hafa aukist til muna og að hermenn hafi verið sendir þangað sem og herskip.

Þröngt á þingi

Nú eru fjölmargar flugvélar frá mörgum ríkjum sem notaðar eru til loftárása yfir Sýrlandi. Bandaríkin gera loftárásir, Rússar, Tyrkir, Frakkar, Ástralar, Kanada, Jórdanía, Sádi-Arabía og Sýrlendingar sjálfir. Áhyggjur eru uppi um að slys gæti átt sér stað, þar sem árásir eru oft á tíðum ekki samræmdar.

Samkvæmt AP fréttaveitunni funduðu varnarmálasérfræðingar Bandaríkjanna og Rússlands í síðustu viku um hvernig væri hægt að draga úr spennu yfir Sýrlandi. Ekki var komist að neinni niðurstöðu og er búist við að viðræður muni halda áfram.

Loftárásir NATO hafa þó flestar verið gerðar í norður- og austurhluta Sýrlands og gegn ISIS, en Rússar hafa gert árásir í vesturhluta landsins. Sjá má yfirlit yfir loftárásir Rússa frá og með 4. október hér á vef Institue for the Study of War.

Rússar segja nú að rúmlega 50 herþotur og þyrlur séu notaðar í aðgerðum þeirra í Sýrlandi. Þeir fljúga um 20 til 25 sinnum á degi hverjum, en flugvélar NATO fljúga um átta sinnum á dag.


Tengdar fréttir

Sprengjum varpað á óvini Assads forseta

Rússar halda áfram loftárásum sínum á uppreisnarmenn í Sýrlandi. Bandaríkin segja loftárásir Rússa vera olíu á eld átakanna. Rússar stefna ekki á landhernað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×