Lífið

Aukin ást í meira wifi

Baldvin Þormóðsson skrifar
Adolf Smári er upprennandi ljóðskáld.
Adolf Smári er upprennandi ljóðskáld. vísir/daníel
„Bókin er í raun tilraun til þess að athuga hvort að ljóð sem taki aðeins þrjár til fjórar sekúndur geti skapað sömu hughrif og önnur,“ segir Adolf Smári Unnarsson ljóðskáld en hann gaf nýverið út ljóðabókina Wifi ljóðin.

„Við búum í heimi þar sem hver sjónvarpsstöð fær í raun bara fjórar sekúndur, hver útvarpsstöð fjórar sekúndur og síðan lesum við bara fyrirsagnir frétta,“ segir Adolf en bókin virðist vera ádeila á flakkarasamfélag nútímans og er Adolf þar ekki undanskilinn.

„Ég er alveg miskunnarlaus flakkari,“ segir ljóðskáldið. „Jafnvel þó að uppáhaldslagið mitt sé á Bylgjunni skipti ég samt um stöð,“ segir Adolf. „Það er eins og að það hafi allir þessa þörf fyrir að vera alls staðar, alltaf.“

Wifi ljóðin er fyrsta ljóðabók ungskáldsins en hann hefur áður fengið ljóð sín prentuð og var það með ungskáldum Fríyrkjunnar.

„Þar komu fyrstu kvæðin mín út en þau voru aðeins frábrugðin þeim sem finnast í þessari bók. Þessi ljóð mega í raun ekki taka neinn tíma í lestri, það er hluti af tilrauninni, þau eiga bara að hafa áhrif strax.“

Ljóðabókin er kaflaskipt eftir þráðlausu netsambandi eða wifi en Adolf lýsir henni sem eins konar ástarsögu.

„Í einum kaflanum er fullt wifi og inniheldur mestmegnis ástarljóð, síðan minnkar tengingin og þá er meiri efi í ljóðunum en síðan er ekkert samband eða ekki kveikt á netinu og þar eru ljóðin því sambandslaus og dekkri en í hinum köflunum,“ segir Adolf sem vinnur mikið með myndmál og alls konar tákn í bókinni.

Útgáfuforlagið Lús býður til útgáfuhófs í kvöld vegna ljóðabókarinnar klukkan sex í bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum en bókina er hægt að nálgast í næstu bókabúð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×