Innlent

Aukið við vopnabúnað lögreglunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aukinn vopnabúnaður lögreglunnar er meðal annars tilkominn vegna fjölda skotárása á Norðurlöndunum undanfarin ár.
Aukinn vopnabúnaður lögreglunnar er meðal annars tilkominn vegna fjölda skotárása á Norðurlöndunum undanfarin ár. Vísir/Getty
Verið er að auka við vopnabúnað íslensku lögreglunnar. Stefnt er að því að allir lögreglubílar landsins verði búnir annars vegar Glock 17-hálfsjálfvirkri skammbyssu og MP5-hríðskotabyssu. Frá þessu er greint í DV í dag.

Þessi aukni vopnabúnaður er meðal annars tilkominn vegna fjölda skotárása sem lögreglan á Norðurlöndum hefur þurft að takast við á undanförnum árum. Hefur DV til dæmis eftir íslenskum lögreglumanni að verið sé að undirbúa lögregluna hér á landi undir svipaða árás og varð í Noregi þegar Anders Breivik varð fjölda manns að bana.

Þá er einnig vísað í skotárás sem varð í Hnífsdal árið 2007 þegar ölvaður maður skaut á eiginkonu sína. Tilgangurinn með því að vopna lögreglumenn er meðal annars til að bæta viðbragðstíma í tilfellum líkt og því í Hnífsdal, þar sem það getur tekið sérsveit lögreglunnar allt að tvo tíma að komast á vettvang. Í skotárásinni í Hnífsdal tók það sérsveitina einmitt einn og hálfan tíma að mæta á staðinn.

Lögreglumenn munu þurfa að standast skotpróf til að fá að nota byssurnar en þær munu vera geymdar í læstri kistu í bifreiðum lögreglunnar, að því er segir í frétt DV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×