Innlent

Aukið álag á lögreglumenn vegna útlendinga í vanda

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vísir/Grafík
Stöðug fjölgun hefur verið á verkefnum lögreglu sem tengjast fólki með erlent ríkisfang síðustu árin. Slík verkefni eru flest í júlí og ágúst. Í fyrra voru verkefnin 23% fleiri en árið 2012. Á tímabilinu janúar til júlí voru verkefnin 27% fleiri árið 2014 en á sama tímabili árið 2013.

Þarna er ekki átt við hegningarlagabrot, heldur önnur verkefni. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra eru 70% þeirra tengd ökutækjum, til dæmis umferðaróhöpp.

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri tekur fram að hún hafi ekki séð tölfræði lögreglunnar. Hún segir þó almennt að mikilvægt sé að gætt sé að öryggi ferðamanna. Hún segir að það þurfi því miður ekki að koma á óvart að samhliða fjölgun ferðamanna þá fjölgi óhöppum sem ferðmenn lenda í. Fjölgun ferðamanna á Íslandi á milli áranna 2012 og 2013 var rétt rúmlega 20%. Árin 2011 og 2012 var hún um nítján prósent.

„Það er ekkert sem bendir til þess að aukningin verði minni í ár en á síðustu árum. Það kallar á það að við séum á tánum með upplýsingagjöf til ferðamanna,“ segir Ólöf.

Á sama tíma séu æ fleiri sem kjósa að ferðast á eigin vegum. Það geti líka skýrt þessa aukningu að einhverju leyti. „Með því er ég alls ekki að draga úr mikilvægi þess að okkur sé umhugað um það að veita gestum okkar sem mestar upplýsingar. En því miður þá er það bara þannig að fólk lendir í óhöppum,“ segir hún.

Jónas Guðmundsson verkefnastjóri slysavarna ferðamanna
Ólöf Ýrr segir að það hafi orðið þróun í því sem kallast upplifunarhagkerfið. Fólk vilji eiga sína eigin upplifun og persónugera hana. „Það lýsir sér þá í því að fólk kemur hingað og vill ekki ferðast í hópi nema að hluta til,“ segir hún.

En það er ekki einungis umferð á vegum sem þarf að hafa í huga þegar ferðamönnum fjölgar eins mikið og á Íslandi undanfarin misseri. Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Landsbjörg, segist telja að það hafi verið meira um óhöpp, slys og veikindi, en undanfarin ár, en Landsbjörg eigi ekki tiltækar tölfræðiupplýsingar um það.

Hópur ferðamanna Ólöf Ýrr Atladóttir segir ferðamenn ekki alltaf vilja vera í hópum heldur skapa eigin upplifun.fréttablaðið/GVA
„Það er í sjálfu sér bara tilfinning en ég held að hún sé rétt,“ segir hann.

Jónas segist ekki hafa skýringu á þessari fjölgun óhappa.

„Það eina sem okkur dettur í hug er að á ákveðnum stöðum, eins og í Landmannalaugum, hafi fólki fjölgað þó að því hafi almennt fækkað á hálendinu. Þar sem er fleira fólk verða fleiri óhöpp, en líka er það óumdeilanlegt að innviðirnir eru lakari. Stígar og vegir og annað lætur á sjá og það gæti verið orsök. En ég tek það fram að þetta eru allt hugleiðingar enn þá. Við erum ekki búin að telja upp úr kössunum,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×