Viðskipti innlent

Aukaatriði að SALEK-ákvæði hafi ekki fylgt með samningum

Bjarki Ármannsson skrifar
Loftmynd af Akranesi.
Loftmynd af Akranesi. Vísir/GVA
Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) segir Verkalýðsfélag Akraness hafa gengist undir launastefnu SALEK rammasamkomulagsins með undirritun nýrra kjarasamninga. Það sé aukaatriði hvort SALEK samkomulagið sé fylgiskjal samningsins eða ekki.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem sambandið sendir frá sér vegna yfirlýsinga Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, í fjölmiðlum um skuldbindingargildi nýju samninganna.

Gátu ekki fallist á að hafa SALEK með sem fylgiskjal

Vilhjálmur hefur ítrekað gagnrýnt SALEK-samkomulagið og krafðist þess við gerð kjarasamninganna að samkomulagið yrði ekki hluti af samningunum. SALEK geri ráð fyrir að launabreytingar í öðrum samningum, sem félagið eigi eftir að gera, verði með þeim hætti sem kveðið er á um í samkomulaginu.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
„Við getum ekkert fallist á það að við ákveðum í þessum samningi hvernig við göngum frá öðrum kjarasamningum sem við eigum eftir að gera,“ sagði Vilhjálmur í samtali við fréttastofu fyrir undirritun samningana. „Það bara stenst enga skoðun.“

Vilhjálmur sagði svo eftir undirritun samninganna að félagið hefði fallist á þá þar sem SÍS hefði fallið frá því að SALEK-samkomulagið væri fylgiskjal með samningnum, sem hefði gert það að ígildi kjarasamnings.

Í tilkynningunni frá SÍS segir þó að það sé aukaatriði hvort SALEK sé fylgiskjal eður ei þar sem skuldbinding við þá launastefnu sem samkomulagið felur í sér felist í inngangi kjarasamningsins. Þar segir að samningurinn byggi á launastefnu SALEK.

„Með undirskrift kjarasamningsins hefur Vilhjálmur Birgisson því undirgengist launastefnu SALEK rammasamkomulagsins og þegið þær launahækkanir sem stefnunni fylgja,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Deilan um Salek gæti endað fyrir héraðsdómi

Verkalýðsfélag Akraness (VLFA) skrifar ekki undir kjarasamning við sveitarfélögin þar sem svonefnt SALEK-samkomulag er með sem fylgiskjal, segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×