Innlent

Auka þurfi framboð leikskólakennara til muna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Umtalsverðan fjölda nýrra leikskólakennara þarf svo tillaga Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um leikskóla að loknu fæðingarorlofi nái fram að ganga. Hún segir dagforeldra koma til með að geta gengið í störf á ungbarnaleikskólunum, þekking þeirra og reynsla sé mikilvæg, en að efla þurfi samstarf við háskólana svo hægt verði að auka framboð á leikskólakennurum.

„Eitt af því sem þarf að vinna í er að efla og auka framboð á leikskólakennurum. Til þess þarf fleiri í leikskólakennaranám og þar spilar líka inn í kjör, vinnuaðstæður og svo framvegis og það er eitthvað sem þarf að skoða. Það þarf að draga fram allt það sem þarf að gera en ég held við getum öll verið sammála um að aðstaðan eins og hún er núna er ekki ásættanleg fyrir velferðarsamfélag, þannig að það er eitthvað sem við þurfum að horfast í augu við,” segir Svandís og bætir við að hún sé ekki með tölur um hversu marga leikskólakennara þyrfti svo allt myndi ganga upp.

„Ég er ekki með tölurnar á hraðbergi en það segir sig sjálft að þetta er umtalsverður fjöldi. En það fer líka eftir því hvernig starfið yrði allt saman skipulagt og þarf að vinnast í samstarfi við þá sem mennta leikskólakennara, bæði menntavísindasvið Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri,” segir hún.

Sjá einnig: Segir dagforeldrakerfið leið til að leysa óþolandi ástand

Sigrún Edda Lövdal, formaður Félags dagforeldra, segir afstöðu Svandísar óskiljanlega. Verið sé að leggja niður dagforeldrastéttina og hefur litla trú á að dagforeldrar hafi áhuga á að starfa á ungbarnaleikskólum á vegum hins opinbera.

„Ég bara skil ekki hvers vegna konan talar með þessum hætti, né hvað veldur því. Því dagforeldrar hafa starfað í tugi ára og verið starfi sínu til mikils sóma. Og ég leyfi mér að stórefast um að dagforeldrar færi sig yfir á leikskóla þó það standi þeim til boða. Eins og hún talar um að hún vill greinilega leggja þessa stétt niður og þetta er starfstétt sem samanstendur í miklum meirihluta af konum og það er mér óskiljanlegt af hverju konunni er svona mikið í mun að leggja niður þessa kvennastétt,” segir Sigrún Edda.


Tengdar fréttir

Segir dagforeldrakerfið leið til að leysa óþolandi ástand

Þingmaður segir dagforeldrakerfið ekki rísa undir nafni sem kerfi, heldur sé það viðbragð við óþolandi ástandi. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að ef gera eigi breytingar á leikskólum þurfi peninga frá ríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×