Innlent

Auka framlög til skólamála um 1,5 milljarða króna

Þorgeir Helgason skrifar
Meirihluti borgarstjórnar samþykkti að auka fjárframlög til skólamála um einn og hálfan milljarð á næsta ári.
Meirihluti borgarstjórnar samþykkti að auka fjárframlög til skólamála um einn og hálfan milljarð á næsta ári. vísir/gva
„Þessi jákvæða þróun í rekstrinum er fagnaðarefni en um leið er mikilvægt að halda áfram á sömu braut af því að rekstur sveitarfélaga er viðkvæmur. Við höfum sagt að við vildum nýta það svigrúm sem skapast hefur til að snúa vörn í sókn í skólamálum,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.

Ákveðið var á borgarstjórnarfundi að hækka framlög til grunn- og leikskóla borgarinnar um 1,5 milljarða króna. Það var gert þegar fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 var samþykkt ásamt fimm ára áætlun til ársins 2021 seint í fyrrakvöld.

Í tilkynningu frá borgarstjóra segir að viðsnúningur hafi orðið á rekstri borgarinnar á árinu vegna hærri tekna og lægri útgjalda. Því var ákveðið að auka fjárframlög til skólamála. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.

„Við sátum hjá vegna þess að við hefðum staðið allt öðruvísi að gerð fjárhagsáætlunarinnar. Það er jákvætt að það sé viðsnúningur í rekstri borgarinnar en það eru ekki öll kurl komin til grafar og við eigum eftir að sjá hvernig árið mun koma út í heild,“ segir Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Áslaug María segist ekki hafa mikla trú á áætlanagerð meirihlutans og mikið sé um óútfærðar tillögur sem standist ekki áætlun. „En það þarf auðvitað að auka framlög til skólamála og fara í ýmsar breytingar þar,“ segir Áslaug.

Á næstu mánuðum stendur til að vinna að frekari greiningu á fjármálum grunnskólanna og starfsemi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×