Viðskipti innlent

Auglýsingar Mbl.is brutu gegn lögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Brotin áttu sér stað í febrúar í fyrra.
Brotin áttu sér stað í febrúar í fyrra.
Neytendastofa segir útvarpsauglýsingar Mbl.is, þar sem fram komu fullyrðingar um vinsældir vefsins, hafa brotið gegn lögum. „100 þúsund fleiri Íslendingar lesa mbl.is en visir.is. Íslendingar lesa mbl.is.“ Svo hljóðaði önnur auglýsingin.

Hin útvarpsauglýsingin hljóðaði svona: „Lestur á mbl.is er tvöfalt meiri en á visir.is. Íslendingar lesa mbl.is.“ Báðar auglýsingarnar voru spilaðar á Rásum eitt og tvö hjá RÚV.

Þó segir Neytendastofa í tilkynningu á heimasíðu stofunnar að auglýsingar með slagorðunum „15 ár á toppnum“ og „Vinsælastur í 15 ár“ hafi ekki brotið lög. Enda hafi Árvaki tekist að sanna þær fullyrðingar.

365 miðlar ehf. kvörtuðu til Neytendastofu með bréfi sem dagsett var 28. febrúar 2013. Þar var kvartað yfir ólögmætri háttsemi Árvakurs hf. sem brjóti gegn lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Árvakur mótmælti þessu, en hætti þó birtingu auglýsinganna að eigin frumkvæði.

„Stofnunin fær ekki séð að fullyrðingarnar séu til þess fallnar að villa um fyrir neytendum eða hafa áhrif á fjárhagslega hagsmuni þeirra en hinar ósönnuðu fullyrðingar eru þrátt fyrir það ósanngjarnar gagnvart keppinauti og til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn, vegna auglýsinga á miðlunum, auk þess að fela í sér villandi samanburð,“ segir í niðurstöðu Neytendastofu.

Ákvörðun Neytendastofu í heild sinni má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×