Íslenski boltinn

Auglýsing Hannesar vann markaðsverðlaun UEFA - sjáið hana hér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. Vísir/Anton
KSÍ og Icelandair unnu markaðsverðlaunin hjá UEFA fyrir auglýsingu sem landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson leikstýrði en þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Auglýsingaherferðin „Við erum öll í sama liði" sem Icelandair framleiddi í samstarfi við KSÍ vann „Creativity and innovation award" á KISS verðlaunahátíðinni sem evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, stendur fyrir. Verðlaunahátíðin er haldin á tveggja ára fresti.

Í niðurstöðu dómnefndar segir að auglýsingin sýni gott samstarf á milli Icelandair og KSÍ en auglýsingin fékk verðlaun í flokknum „Sponsor activation" og er það líka mikil viðurkenning fyrir Icelandair að fá þessi verðlaun.

Það komu margir að þessu verkefni en þar á meðal voru liðsmenn Tólfunnar áberandi í auglýsingunni, leikmenn landsliðanna tveggja og þjálfarar auk þess að starfsfólk KSÍ lagði hönd á plóg.

Auglýsingin var tekin upp frá sjónhorni landsliðsfólksins sjálfs og sá sem horfir á hana fær það beint í æð hvernig er það að spila með íslenska landsliðinu í fótbolta.  Það má sjá þessa skemmtilegu auglýsingu hér fyrir neðan.

Það var framleiðslufyrirtækið Saga Film sem hafði veg og vanda af gerð auglýsingarinnar með Íslensku auglýsingastofunni og markaðsdeild Icelandair.

Verðlaunin voru afhent í Cascais í Portúgal og tóku Hilmar Þór Guðmundsson og Ómar Smárason frá KSÍ við verðlaununum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×