Fótbolti

Auðvelt hjá Frökkum gegn Danmörku

Anton Ingi Leifsson skrifar
Oliver Giroud, annar markaskoraranna, í baráttunni í kvöld.
Oliver Giroud, annar markaskoraranna, í baráttunni í kvöld. vísir/getty
Alexandre Lacazette og Oliver Giroud skoruðu mörkin í 2-0 sigri Frakklands á Danmörku í vináttulandsleik í knattspyrnu sem fram fór í Frakklandi.

Leikurinn byrjaði fjörlega og fyrsta markið kom eftir fjórtán mínútna leik. Alexandre Lacazette, markahrókur Lyon, kom Frökkum þá yfir, en hann fylgdi eftir skoti Antonie Griezmann.

Frakkar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik og Giroud skallaði meðal annars boltann yfir úr góðu færi. Frakkarnir tvöfölduðu þó forystuna fyrir hlé.

Geoffrey Kondogbia átti allan heiðurinn. Hann óð í gegnum vörn Dana, lagði boltann svo skemmtilega á Giroud sem kláraði færið vel. 2-0 í hálfleik og Danirnir í veseni.

Síðari hálfleikur var ekki mikið fyrir augað, en Frakkarnir voru sterkari. Þeir gerðu meðal annars tilkall til vítaspyrnu, en Ivan Kružliak, dómari leiksins, dæmdi ekkert.

Leikurin fjaraði svo út og urðu lokatölur 2-0 sigur Frakklands. Frakkar eru gestgjafar á Evrópumótinu sumarið 2016 þannig þeir taka ekki þátt í undankeppnum. Danir sátu hjá í sínum riðli þessa helgina.

Byrjunarlið Dana (4-3-3): Schmeichel; L. Jacobsen, Sviatchenko, Kjaer, Boilesen; Eriksen, Wass, Kvist, Krohn-Dehli; Bendtner, Vibe.

Byrjunarlið Frakklands (4-2-3-1): Ruffier; Jallet, Varane, Koscielny, Tremoulinas; Schneiderlin, Kondogbia; Lacazette, Payet, Griezmann; Giroud.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×