Skoðun

Auðveldasta leiðin ekki alltaf sú rétta

Hilmar Hilmarsson skrifar
Sumt er talið svo göfugt og fallegt að það er eins og ekkert megi verða í vegi þess og tilgangur geti helgað öll meðul. Íþróttaiðkun og skógrækt eru dæmi um málefni sem virðast falla í þennan flokk hér á Íslandi. Svo ekki sé minnst á notkun reiðhjólahjálma.

Í umræðu undanfarinna daga um reglur um auglýsingar í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar hefur lítið borið á því að andstæðingar reglnanna tækjust á við þau sjónarmið og þá röksemdafærslu sem að baki reglunum búa. Í aðalatriðum er látið nægja að segja reglurnar vondar vegna þess að íþróttaiðkun barna sé eftirsóknarverð. Borgaryfirvöld eru hvött til að breyta reglunum enda séu þær „vitlausar og illa ígrundaðar“ (MT Fréttablaðið 12. júlí 2014). Ég þykist geta fullyrt að reglurnar hafi verið settar að mjög vel athuguðu máli og mín skilaboð til nýrrar borgarstjórnar eru því þessi: Farið ykkur hægt við breytingar á þessum reglum.

Almennar reglur

Mikilvægt er að hafa í huga að reglur þessar eru almennar en beinast ekki að íþróttahreyfingunni sérstaklega. Það sjónarmið liggur að baki reglunum að óviðeigandi sé að beina auglýsingum að börnum og að skólakerfi sem skyldar öll börn til skólagöngu hljóti að ábyrgjast að í skólanum séu börn óhult fyrir auglýsingum. Gildir þá einu hvort hið auglýsta getur í einhverjum skilningi talist göfugt eða jákvætt fyrir þroska barnanna. Mörkin verður einhvers staðar að draga og önnur leið en sú að banna allar utanaðkomandi viðskiptaauglýsingar getur hæglega leitt menn í ógöngur.

Nú um stundir er mikið rætt um að auka þurfi lestur og lestrarfærni. Viljum við leyfa bókaútgefendum að markaðssetja vöru sína innan veggja skólanna í jólabókaflóðinu? Eða plötuútgefendur? Fáir mótmæla því að tónlist geti göfgað mannsandann.

Sumum finnst upplagt að nota póstlista skólanna til að koma boðum um frístundatilboð beint til foreldra. Auglýsingar í gegnum póstlista eru ásættanlegar þegar þannig háttar til að neytendur geta að skaðlausu skráð sig af listunum. Sú er ekki raunin með þá póstlista sem skólar nota til að koma nauðsynlegum boðum til foreldra nemenda sinna. Foreldrar verða því að geta treyst því að þeir séu ekki nýttir til markaðssetningar.

Eitt af því sem nefnt hefur verið sem röksemd fyrir breytingum á reglunum er að erfitt sé að koma boðum um íþróttastarf til erlendra foreldra. Það er vafalaust rétt og almennt hygg ég að segja megi að á flestum sviðum mætti gera betur í að kynna þá möguleika sem í boði eru fyrir fólki sem ekki hefur íslensku fullkomlega á valdi sínu. En hér verða menn að finna aðrar leiðir. Það er vissulega rétt að það er auðvelt að koma boðum í gegnum skólana en það er ekki alltaf rétt að velja auðveldustu leiðina.




Skoðun

Sjá meira


×