Enski boltinn

Auðveldasta jóladagskrá í sögu ensku úrvalsdeildarinnar?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pellegrini ætti að geta brosað í byrjun nýs árs ef allt verður eðlilegt.
Pellegrini ætti að geta brosað í byrjun nýs árs ef allt verður eðlilegt. Vísir/Getty
Manuel Pellegrini, stjóri Man. City, þarf nú ekkert að fara á taugum þó svo hans lið verði án Argentínumannsins Sergio Aguero og fleiri góðra leikmanna í jólatörninni erfiðu sem fram undan er í ensku úrvalsdeildinni.

Venjulega lenda stóru liðin í því að mæta öðrum liðum í toppbaráttunni um jólin en það er óhætt að segja að það sé langt síðan lið fékk eins auðvelda dagskrá og bíður Man. City um jólin.

Tala menn um að þetta sé jafnvel auðveldasta jóladagskrá toppliðs í sögu úrvalsdeildarinnar.

Törnin byrjar um helgina og liðin fjögur sem bíða Man. City sitja í 14., 15., 16. og 17. sæti deildarinnar.

Það verður að teljast ótrúlega vel sloppið og sérstaklega þar sem City á þrjá af þessum leikjum á heimavelli. City er síðan nýbúið að spila við botnlið deildarinnar, Leicester, og hafði þar 0-1 sigur gegn botnliðinu.

Þrátt fyrir það sér Pellegrini ástæðu til þess að kvarta yfir leikjaálaginu en það hefur aðeins farið í taugarnar á honum að fyrir utan Aguero hafa þeir Stevan Jovetic og Edin Dzeko líka meiðst og verða eitthvað fjarverandi.

„Í fyrra spiluðum við níu leiki í desember og níu í janúar. Það er erfitt halda dampi í slíku álagi. Ég skil að leikirnir á annan í jólum skipti fólkið hér máli en ég skil ekki af hverju það er spilað 28. desember og 1. janúar,“ sagði Pellegrini pirraður.

Hann verður kannski ekki eins pirraður ef hann fær tólf punkta úr næstu fjórum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×