Innlent

Auður Alfa sækist eftir 3.-4. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar

Birta Svavarsdóttir skrifar
Auður Alfa Ólafsdóttir
Auður Alfa Ólafsdóttir
Auður Alfa Ólafsdóttir, stjórnmálahagfræðingur, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3.-4. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar. Auður er 27 ára gömul og búsett í Reykjavík ásamt sjö ára syni sínum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Auði nú í morgun.

Segist hún gefa kost á sér til starfa fyrir Samfylkinguna „vegna þess að málefni jafnaðarstefnunnar brenna á mér en þau ganga út á jöfn tækifæri fyrir alla, velferð, jafnrétti, umhverfisvernd og fjölbreytt og samkeppnishæft atvinnulíf.“

Auður vill leggja áherslu á að fjárfesta í sterku velferðar- og heilbrigðiskerfi og stuðla að öflugu atvinnulífi sem einkennist af heilbrigðri samkeppni og góðu vinnuumhverfi. Þá vill hún taka á þeim vandamálum sem ungt fólk stendur frammi fyrir, meðal annars slæmum kjörum á leigumarkaði, skorti á störfum og tækifærum við hæfi og gölluðu námslánakerfi.

„Við höfum öll spilin í hendi okkar til þess að byggja upp heilbrigt og gott velferðarsamfélag. Spurningin er bara hvernig við spilum úr þeim,“ segir Auður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×