Skoðun

Auðlindaarður í Alaska

Guðmundur Örn Jónsson skrifar
Þann 23. október síðastliðinn fékk hver íbúi Alaska 1.884 dollara greidda í auðlindaarð frá þeim aðilum sem nýta auðlindir fylkisins. Samsvarar það því að hver fjögurra manna fjölskylda hafi fengið 914 þúsund krónur, eða svipaða upphæð og „Leiðréttingin“ hefði henni verið dreift jafnt á alla landsmenn. Íbúar Alaska hafa aftur á móti fengið auðlindaarð greiddan árlega seinustu 33 árin. Á þeim tíma hefur hver íbúi fengið 38.227 dollara í arð sem samsvarar 47 þúsund krónum á mánuði fyrir fjögurra manna fjölskyldu öll 33 árin.

Flestir Íslendingar líta svo á að helstu náttúruauðlindir þjóðarinnar, fiskur, vatnsorka og jarðvarmi, séu og eigi að vera í eigu þjóðarinnar. Almennt hirða eigendur arð af eignum sínum, utan 18% fjármagnstekjuskatts sem ríkið hirðir, og liggur því beinast við að sama gildi um auðlindaarð og hann sé greiddur út til þjóðarinnar. Ef ríkið hirðir allan arðinn, eins og nú, jafngildir það 100% fjármagnstekjuskatti á auðlindaarð, samanborið við 18% fjármagnstekjuskatt af öðrum eignum. Erfitt er að rökstyðja slíka mismunun milli eignaflokka. Bein útgreiðsla auðlindaarðsins til þjóðarinnar er jafnframt besta leiðin til að festa innheimtu auðlindaarðs í sessi.

Besta sönnun þess er löng reynsla Alaska af slíku fyrirkomulagi. Þar hefur það jafngilt pólitísku sjálfsmorði að leggja til breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Til að tryggja að upphæð auðlindaarðsins rýrni ekki, eins og gerðist í tíð núverandi ríkisstjórnar í tilfelli sjávarútvegs, þarf samkeppni á markaði að ráða upphæð hans en ekki að vera ákveðin af stjórnmálamönnum.

Innan við helmingur ungra kjósenda sá ástæðu til að mæta á kjörstað í seinustu kosningum, enda átti stór hluti kjósenda í erfiðleikum með að gera upp á milli stjórnmálaflokkanna. Í seinustu alþingiskosningum dró þó einfalt loforð framsóknarmanna, um lækkun lána, marga á kjörstað. Loforð um beina útgreiðslu markaðstengds auðlindaarðs er jafnframt einfalt og ætti að geta dregið kjósendur á kjörstað. Ekki sakar að sterk siðferðis- og hagkvæmnisrök eru fyrir slíku fyrirkomulagi. Ef slíkt fyrirkomulag væri jafnframt varanlega tryggt í sessi í stjórnarskrá, færi ekki lengur orka fjölmargra landsmanna í að berjast um þessar takmörkuðu auðlindir. Gæti sú orka farið í að byggja upp aðrar auðlindir sem ekki eru takmarkaðar, t.d. mannauð með aukinni menntun.




Skoðun

Sjá meira


×