Fótbolti

Aubameyang: Ef ég fer frá Dortmund verður það bara til Real Madrid

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gabonski framherjinn raðaði inn fyrir Dortmund í fyrra.
Gabonski framherjinn raðaði inn fyrir Dortmund í fyrra. vísir/getty
Pierre-Emerick Aubameyang, framherji Dortmund, segir það, að spila fyrir Real Madrid sé hans helsta markmið á ferlinum og að spænski risinn er eina félagið sem fengi hann til að yfirgefa Dortmund.

Aubameyang hefur verið orðaður við enska liðið Manchester City að undanförnu en það er sagt vera búið að gera Dortmund risatilboð í framherjann sem skoraði 39 mörk í öllum keppnum á síðustu leiktíð.

Aðspurður í viðtali við ZDF hvort hann væri á leið frá Dortmund svaraði Gabonmaðurinn einfaldlega: „Nei, ekki á þessu ári. En eina félagið sem gæti fengi mig til að yfirgefa Dortmund er Real Madrid. Ef það hringir ekki þá fer ég ekki.“

Aubameyang lofaði afa sínum að spila fyrir Real Madrid þegar sá gamli var við það að kveðja þennan heim. Hann vonast til að geta staðið við loforðið.

„Pabbi mömmu vildi alltaf að ég myndi spila á Spáni. Fyrir tveimur árum þegar hann lést lofaði ég honum að einn daginn myndi ég spila fyrir Real Madrid. Ég mun leggja mikið á mig til að ná því markmiði,“ segir Aubameyang.

„Real Madrid er stóra markmiðið mitt en þessa stundina er ég ánægður hjá Dortmund. Ef það er tækifæri til að fara til Madrid mun ég segja já samstundis,“ segir Pierre-Emerick Aubameyang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×