Viðskipti innlent

ÁTVR hagnaðist um 1.221 milljónir árið 2015

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
19.603 þúsund lítrar af áfengi seldust í fyrra.
19.603 þúsund lítrar af áfengi seldust í fyrra. vísir/gva
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hagnaðist um 1.221 milljónir króna á árinu 2015 en greiddur var 1.500 milljón króna arður í rikissjóð. Þetta kemur fram í ársskýrslu fyrirtækisins sem kom inn á vefinn fyrir skemmstu.

Alls voru seldir 19.603 þúsund lítrar af áfengi en þar af nam bjórsala 15.280 þúsund lítrum. Sala jókst um 2,01% frá árinu 2014 en þetta er fjórða árið í röð sem sala eykst. Í árið 2014 jókst sala um 3,02%. Sala áfengis nálgast nú það sem hún var á árunum 2007-2008 og þá er þetta besta söluár ÁTVR frá árinu 2010.

„Í þjóðfélaginu hefur mikið verið rætt um fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi. Lagt var fyrir Alþingi frumvarp nánast samhljóða frumvarpi frá fyrra ári þar sem gert er ráð fyrir að leggja ÁTVR niður í núverandi mynd og leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Í könnun sem Gallup framkvæmdi voru landsmenn spurðir um ánægju um fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi. Niðurstaðan er að vaxandi fylgi er við núverandi fyrirkomulag og eru 59% ánægðir, 25% hlutlausir og 16% óánægðir,“ segir meðal annars í ársskýrslunni.

Sala á neftóbaki eykst enn

Sala á vindlum og vindlingum heldur áfram að dragast saman en aftur á móti seldust rúm 36 tonn af neftóbaki. Sala á því tók duglegt stökk milli áranna 2013 og 2014 og heldur áfram að aukast nú.

Þá dróst sala á plastpokum saman en um 37 prósent viðskiptavina kaupa plastpoka samanborið við 40 prósent í fyrra. 35.000 fjölnota plastpokar voru seldir á árinu en það er aukning um rúm tólf prósent.

Í árslok störfuðu 442 manns hjá ÁTVR en þar af voru 214 fastráðnir. Fleiri konur starfa hjá fyrirtækinu en sex af hverjum tíu starfsmönnum eru kvenkyns. Hjá fastráðnum lækkar hlutfallið niður í 52 prósent á móti 48.

Vinsælasti lagerbjór síðasta árs var Víking Gylltur en tæplega 1,6 milljón lítra seldist af honum. Það er rúmlega tvöfalt meira en næstvinsælasti lagerbjórinn, Víking Lager. Í þriðja sæti var Egils Gull sem seldist í rúmum 575 þúsund lítrum.

Í flokki öls og annarra bjórtegunda þá tróndi Einstök White Ale á toppnum með rétt rúma hundraðþúsund lítra. Pale Ale, frá sama framleiðanda, var í öðru sæti með tæpa áttatíuþúsund lítra en það er tvöfalt meira en Jólagull sem var í þriðja sæti.

Ársskýrsluna má skoða í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Bitist um brennivín í búðir frá aldamótum

Frumvarp um frjálsa smásölu áfengis var fyrst lagt fram skömmu eftir aldamót. Deilt hefur verið um málið síðan þá og fjöldamörg frumvörp verið lögð fram sem öll hafa dagað uppi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×