Viðskipti innlent

Atvinnuleysi og -þátttaka hefur lítið breyst á milli ára

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Atvinnuþátttaka jókst lítillega milli september og október.
Atvinnuþátttaka jókst lítillega milli september og október. Fréttablaðið/Vilhelm
Leitni árstíðaleiðréttinga á vinnumarkaðstölum síðustu tólf mánaða sýnir hægfara en jákvæðar breytingar, að sögn Hagstofu Íslands. „Á tímabilinu hefur atvinnuþátttaka aukist um 0,7 prósentustig, atvinnuleysi lækkað um 0,3 stig og hlutfall starfandi aukist um 0,7 stig.“

Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar sýnir að í október síðastliðnum voru að jafnaði 189.300 á aldrinum 16-74 ára starfandi, sem jafngildir 81,9 prósenta atvinnuþátttöku.

Af þessum voru 179.800 starfandi og 9.500 án vinnu og í atvinnuleit. „Hlutfall starfandi af mannfjölda var 77,8 prósent og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 5 prósent,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.

Þegar leiðrétt hefur verið fyrir árstíðasveiflum segir Hagstofan tölurnar jafngilda 82,7 prósenta atvinnuþátttöku, 2,2 prósentustigum meira en í september.

Leiðréttar tölur sýni að bæði atvinnuþátttaka og atvinnuleysi hafi aukist lítillega frá því í september, starfandi fjölgaði um 1,5 prósentustig og atvinnuleysi jókst um 0,5 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×