Viðskipti innlent

Atvinnuleysi lækkar um 1,8% frá sama tíma í fyrra

Randver Kári Randversson skrifar
Áfram dregur úr atvinnuleysi og kaupmáttur launa eykst.
Áfram dregur úr atvinnuleysi og kaupmáttur launa eykst. Vísir/Vilhelm
Í vikunni birtust þrjár tölur um vinnumarkaðinn á Íslandi. Hagstofan og Vinnumálastofnun birtu atvinnuleysistölur og Hagstofan birti einnig launavísitölu júnímánaðar.

Í Hagsjá Landsbankans kemur fam að tölurnar sýna allar að vinnumarkaðurinn er á réttri leið, atvinnuleysi lækkar og laun hækka. Á sama tíma er verðbólgan lág og því hefur kaupmáttur launa aukist.

Atvinnuleysi á mælikvarða Hagstofunnar (úrtakskönnun) var 4,6% í júní samanborið við 7,1% í maí, mikil sveifla er í tölum Hagstofunnar og því betra að skoða lengri tímabil og meðaltöl. Í júní 2013 mældist atvinnuleysið 6,4%, það hefur því lækkað um 1,8 prósentustig milli ára.

Samkvæmt tölum VMST var atvinnuleysið 3,2% í júní og lækkaði um 0,4% frá mánuðinum á undan. Í júní 2013 var atvinnuleysið 3,9% og hefur það því lækkað um 0,7 prósentur milli ára. Sé horft á 12 mánaða meðaltal er atvinnuleysið einni prósentu lægra á þann mælikvarða en það var fyrir ári síðan.

Launavísitalan hækkaði um 0,5% milli mánaða í júní. Launavísitalan hefur því hækkað um 4,1% á þessu ári og um 5,4% frá sama mánuði árið áður.

Verðbólgan hefur verið lág að undanförnu, það veldur því að launahækkanir skila sér frekar í auknum kaupmætti. Kaupmáttur launa hefur aukist um 3,1% á árinu 2014, sem verður að teljast nokkuð mikil hækkun. Kaupmáttur launa er nú á svipuðum stað og hann var undir lok árs 2006. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×