Innlent

Atvinnuleysi ekki minna síðan árið 2008

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Minna kul virðist yfir vinnumarkaði en verið hefur.
Minna kul virðist yfir vinnumarkaði en verið hefur. Fréttablaðið/Anton
Á þriðja ársfjórðungi voru að meðaltali 7.700 manns án vinnu og í atvinnuleit, eða fjögur prósent vinnuaflsins, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands.

Miðað við sama ársfjórðung í fyrra fækkar atvinnulausum um 600 og hlutfallið lækkar um 0,4 prósentustig. „Atvinnuleysi hefur ekki mælst jafn lágt í ársfjórðungum síðan á fjórða ársfjórðungi 2008, en þá mældist atvinnuleysi einnig fjögur prósent,“ segir á vef Hagstofunnar.

Þá hefur einnig dregið úr langtímaatvinnuleysi, en í þeim hópi er fólk sem verið hefur án vinnu í 12 mánuði eða lengur. Á þriðja ársfjórðungi í ár höfðu um 900 verið langtímaatvinnulausir, samanborið við 1.900 í fyrra.

Langtímaatvinnuleysi hefur ekki mælst jafn lágt síðan á þriðja fjórðungi 2009. Hagstofan segir að á þriðja fjórðungi í ár hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði 190.400 manns á aldrinum 16-74 ára sem jafngildir 82,4 prósenta atvinnuþátttöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×